Sport

Sigfús tekur sér frí

Einn öflugasti, og skrautlegasti, handboltamaður Íslands, Sigfús Sigurðsson, hefur ákveðið að taka sér frí frá íslenska landsliðinu í handknattleik. Hann mun ekkert spila með landsliðinu næsta árið og svo gæti farið að hann spilaði ekkert næstu tvö árin. "Það er kominn tími til þess að ég setji sjálfan mig í fyrsta sætið," sagði Sigfús í samtali við Fréttablaðið frá Þýskalandi. "Ég vil fara að koma sjálfum mér í lag en ég hef átt í þrálátum meiðslum og mér veitir ekkert af landsleikjafríunum til þess að lappa upp á sjálfan mig. Ég verð að halda sjálfum mér í standi í stað þess að keyra mig alltaf út." Sigfús er einmitt meiddur þessa dagana en hann var skorinn upp fyrir tveim vikum síðan og getur þar af leiðandi ekki spilað handbolta næstu tvö mánuði. "Vonandi verð ég klár fyrr en þetta snýst mikið um það hversu langan tíma þetta tekur að gróa. Svo var taugin sem liggur í vinstri fótinn orðin mjög bólgin og þetta tekur allt tíma," sagði Sigfús sem er orðinn þreyttur á því að vera sífellt meiddur og tekur því þessa ákvörðun. "Með því að taka mér frí frá landsliðinu er ég að vonast til þess að lengja minn atvinnumannsferil um tvö til þrjú ár. Auðvitað er leiðinlegt að geta ekki spilað áfram með liðinu því það er alltaf mikill heiður, og gaman, að spila með landsliðinu en ég því miður get bara ekki haldið áfram svona lengur. Vonandi fæ ég bót meina minna svo ég geti spilað með landsliðinu síðar," sagði Sigfús. Það er ljóst að nýr landsliðsþjálfari verður með mikið breytt lið í höndunum á HM í byrjun næsta árs því Ólafur Stefánsson segist heldur ekki ætla að vera með á HM í Túnis. Svo er Patrekur Jóhannesson ekki í ástandi til að spila með landsliðinu og svo er alls óvíst hvort Dagur Sigurðsson spilar áfram með liðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×