Sport

Mörkin send í símann

Sjónvarpsstöðin Sýn hefur tryggt sér réttinn til að birta mörk og atvik úr Meistaradeild Evrópu og enska boltanum í gegnum síma. Um er að ræða byltingu í þjónustu við íþróttaáhugamenn með tilkomu myndsíma. Áskrifendur að þessari þjónustu geta fengið öll mörk liða sinna beint með fyrsta flokks myndgæðum í símann um leið og þau gerast. Einnig geta áskrifendur fengið mörk úr öðrum leikjum og sömuleiðis umdeild atvik. Farið verður að veita þjónustuna á næstu 6-8 vikum að sögn Hilmars Björnssonar, sjónvarpsstjóra Sýnar, en þetta fyrirkomulag hefur slegið í gegn annars staðar í Evrópu og náð gríðarlegri útbreiðslu í Bretlandi á örskömmum tíma. „Við hugsum um þjónustuna við áhorfendur Sýnar í víðari skilningi en áður og þetta er liður í þeirri stefnumótun að hafa forystu á íslenskum sjónvarpsmarkaði, nú sem fyrr. Við verðum fyrst með stafrænt sjónvarp og fyrst til að senda sjónvarpsefni beint í myndsíma,“ sagði Hilmar. Sýn á nú í samningaviðræðum við bæði símafélögin um þátttöku í þessu verkefni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×