Sport

Finnum nýjan þjálfara fljótlega

Guðmundur Ingvarsson, formaður HSÍ, var fullur hróss í garð Guðmundar Guðmundssonar á blaðamannafundinum í gær en hann segir að samstarfið við Guðmund hafi bæði verið ánægjulegt og árangursríkt. En kom það honum ekkert á óvart að Guðmundur skyldi ákveða að hætta? "Hún kom okkur svolítið á óvart, ég get ekki neitað því. Við héldum að hann vildi kannski stýra liðinu í Túnis en það eru kynslóðaskipti framundan í landsliðinu og því fannst honum eðlilegt að nýr maður tæki við," sagði Guðmundur en ljóst er að landsliðið verður án Ólafs Stefánssonar, Sigfúsar Sigurðssonar, Patreks Jóhannessonar, Róberts Sighvatssonar og hugsanlega Dags Sigurðssonar í Túnis. Reyndar ala menn enn þá von í brjósti að Ólafur verði með í Túnis en hann hefur ekki gefið það út að hann hafi hvikað frá fyrri ákvörðun um að hvíla sig á landsliðinu. Guðmundur segist ætla að taka sér svona 2-3 vikur í að finna nýjan landsliðsþjálfara en ekki hefur enn verið rætt við neina um starfið. "Vonandi klárum við málin sem fyrst. Það er allt opið varðandi menn og erlendur þjálfari kemur alveg til greina," sagði Guðmundur en þeir sem helst eru orðaðir við starfið í dag eru Viggó Sigurðsson og Geir Sveinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×