Sport

Gríðarleg spenna fyrir leikinn

Gríðarleg spenna er fyrir leik Chelsea og Evrópumeistara Portó í Meistaradeild Evrópu en liðin mætast á Stamford Bridge í Lundúnum í kvöld. Flest bendir til þess að Eiður Smári Guðjohnsen og Didier Drogba verði saman í fremstu víglínu Chelsea. Þessi tvö lið hafa aldrei mæst áður en Jose Mourinho, stjóri Chelsea, stýrði Porto til sigurs í vor í Meistaradeildinni.  Eiður Smári var fulltrúi leikmanna Chelsea á blaðamannafundinum fyrir leikinn í gær. Hann var m.a. spurður út í gagnrýni á leikaðferð Chelsea undir stjórn Morinho og sagði skort á mörkum og að liðið væri of varnarsinnað meðal þess sem leikmenn heyrðu að sett væri út á. „Ég held að við tökum ekki mikið mark á þessu við því höfum spilað góðan fótbolta. Við höfum stjórnað leikjum og hvort sem þú vinnur eitt núll eða fjögur núll, hvort tveggja gefur þér þrjú stig og mörkin mun koma næstu mánuðina því við erum tiltölulega nýtt lið með nýja leikmenn. Við verðum bara betri,“ sagði Eiður Smári. Leikur Chelsea og Portó verður í beinni útsendingu á Sýn kl. 18.45. Síðari leikur kvöldsins á Sýn er viðureign Rosenborgar og Arsenal en á milli leikjanna verður markaþáttur Meistaradeildarinnar á dagskrá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×