Sport

Eygerður Inga áminnt

Dómstóll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur áminnt Eygerði Ingu Hafþórsdóttur, frjálsíþróttakonu úr FH, fyrir að hafa neytt efedríns án þess að það hafi verið ásetningur hennar að nota efnið. Eygerður mun hafa keypt ginseng töflur í Bandaríkjunum sem sérstaklega voru ætlaðar íþróttafólki en af innihaldslýsingu efnisins benti ekkert til þess að þar væri efedrín að finna. Við frekari rannsókn dómstóls ÍSÍ kom hins vegar í ljós að svo var. Þar sem hin kærða upplýsti á lyfjaeftirlitsblaði, eftir Meistaramótið í sumar þegar sýnin voru tekin, að hún hefði tekið ginseng, og með tilliti til eindregis vilja kærðu og aðstandenda hennar til að upplýsa málið, féllst dómstóll á dómkröfu lyfjaeftirlits ÍSÍ og veitti Eygerði Ingu áminningu en þyngsta refsing er annars tvö ár. Þá var ógildur árangur Eygerðar í 800 og 3000 metra hlaupi og árangur boðshlaupssveitar FH í 4x400 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands sem fram fór 24. og 25. júlí í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×