Sport

Viggó eða Geir sem tekur við?

Guðmundur Þ. Guðmundsson, fráfarandi landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, segist hafa ákveðið fyrir nokkru síðan að skipta um starfsvettvang. Honum finnst þetta réttur tímapunktur með hliðsjón af næstu verkefnum landsliðsins, þ.e. World Cup nú í haust og heimsmeistaramótinu í Túnis í janúar. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í dag í kjölfar afsagnar Guðmundar. Guðmundur tók fram að Handknattleikssamband Íslands hafi viljað að hann héldi áfram með liðið þar til samningur hans rynni út þann 1. maí á næsta ári. Honum fannst hins vegar rétt að gera það ekki.   Samkvæmt heimildum íþróttadeildar Stöðvar 2 og Sýn mun Viggó Sigurðsson eða Geir Sveinsson taka við þjálfun landsliðsins. HSÍ vildi ekkert láta uppi um arftaka Guðmundur en sagði niðurstöðu í því máli að vænta á næstu 2-4 vikum.  HSÍ hefur sent frá sér tilkynningu vegna afsagnar Guðmundar. Þar segir:  „Hér með tilkynnist að Guðmundur Guðmundsson, þjálfari A-landsliðs karla hefur óskað eftir því við stjórn Handknattleikssambands Íslands að láta af störfum sem þjálfari liðsins. Guðmundur hóf störf sem landsliðsþjálfari Íslands 1. maí 2001 og hefur á þessu tímabili stjórnað landsliðinu í 97 leikjum og þar með 4 stórkeppnum sem eru: EM 2002 sem fram fór í Svíþjóð þar sem  liðið lenti í 4.sæti. HM í Portúgal 2003 þar sem liðið lenti í 7. sæti og vann sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004. EM 2004 sem fram fór í Slóveníu þar sem liðið lenti í 13.sæti. Ólympíuleikunum í Aþenu þar sem liðið lenti í 9. sæti. Eins og á ofangreindu má sjá hefur íþróttalegur árangur landsliðsins undir stjórn Guðmundar verið með miklum ágætum. Liðið hefur nú þegar unnið sér rétt til þátttöku á 5. stórkeppninni á þessu tímabili og er það Heimsmeistaramótið í Túnis sem fram fer í janúar 2005. Stjórn Handknattleikssambands Íslands, landsliðsnefnd og starfsmenn þakka Guðmundi Guðmundssyni fyrir frábært samstarf á þessu tímabili.“ Nánar verður fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld



Fleiri fréttir

Sjá meira


×