Sport

Magnús kominn heim í KR

Magnús Gylfason sem þjálfað hefur lið ÍBV undanfarin tvö ár hefur verið ráðinn nýr þjálfari KR í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Ekki var látið þar við sitja heldur kynnti stjórn KR einnig til sögunnar nýjan leikmann, færeyska landsliðsmanninn Rógva Jacobsen. Magnús segist hlakka mikið til að takast á við þetta nýja verkefni en hann segir alla stemmningu hafa vantað í lið KR í sumar. Meiri pressa hjá KR "Þetta er of gott tækifæri til að sleppa jafnvel þó að það sé leiðinlega að skilja við ÍBV nú þegar liðið kemst í Evrópukeppnina á næsta ári. Hvað varðar framtíðina er þetta tiltölulega nýgengið í gegn og mér hefur ekki gefist mikið tóm til að setjast niður en ég hef ýmsar hugmyndir hvað varðar liðið og mun bæta við mönnum þegar þar að kemur. Ég gerði hins vegar engar kröfur um leikmenn að svo stöddu enda vil ég sjá hvað ég hef í höndunum áður en lengra er haldið."  Magnús segist vita að mun meiri pressa verður á honum sem þjálfara KR en ÍBV en það sé nokkuð sem hann sé vanur og því kippi hann sér ekkert sérstaklega upp við það. "Vissulega eru gerðar meiri kröfur hér en á móti kemur að ég hef þjálfað hér áður og þekki til mála. Mitt hlutverk verður að koma KR að minnsta kosti í Evrópukeppnina ef ekki ofar og ég treysti mér til að gera það." Rógvi kemur frá Færeyjum Á sama tíma og tilkynnt var um ráðningu Magnúsar var einnig tilkynnt að KR hefði gert samning við færeyska miðjumanninn Rógva Jacobsen og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Rógvi hefur undanfarin ár leikið með HB í Færeyjum og skorað þar 35 mörk í 94 leikjum með liðinu. "Ég er afar sáttur við að vera kominn til KR. Ég fylgist ágætlega með íslenskri knattspyrnu og veit sem er að liðið er eitt hið besta í landinu. Ég veit af slæmu gengi liðsins í sumar og vona að ég geti hjálpað til að koma því á réttan kjöl á ný næsta sumar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×