Sport

Rodman, Drexler og Jordan í NBA?

Þær sögur ganga fjöllum hærra í Bandaríkjunum að þrír heimsþekktir körfuboltamenn muni leika í NBA-deildinni í vetur. Fyrst fréttist að Clyde Drexler, sem gerði garðinn frægan með Portland Trailblazers og Houston Rockets, hefði í hyggju að ganga til liðs við Denver Nuggets. Þá hefur Dennis Rodman, Ormurinn svokallaði, æft með liðinu upp á síðkastið. Þá er ekki öll sagan sögð því Michael Jordan æfði grimmt í sumar og sögur herma að hann sé á leið í Miami Heat. Pat Riley, forseti Heat, neitaði að þeir hefðu ræðst við. "Þetta er mjög dæmigert og gerist oft," sagði Riley. "Sagan byrjar sem lítil ályktun og vex svo ásmegin. Ef Jordan hringir munum við ræða við hann með virðingu." Er Jordan ekki velkominn? Sagan af endurkomu Jordans barst til leikmanna Miami Heat, sem voru missáttir við upplýsingarnar. Shaquille ONeal sagði félögum sínum að hann hefði ekki áhuga á að fá goðið í Heat. Að sögn Shaq skildi Jordan eftir fjölmörg skilaboð á símsvara miðherjans og var Shaq viss um að sá gamli ætlaði að snúa aftur. Sjálfur skilur Jordan ekkert í neinu. "Ég hef ekkert talað við Shaq. Það er engin endurkoma plönuð," sagði Jordan. Litríkur Rodman Hinn endalaust skrautlegi Rodman mætti nýlega á æfingu hjá Denver Nuggets. Kiki Vandeweghe, þjálfari Nuggets, sagðist alltaf tilbúinn að skoða menn á borð við Rodman. "Af hverju ekki? Menn eins og Rodman ná aldrei spilaþörfinni úr sér," sagði Vandeweghe. "Rodman var að vísu meiddur á æfingunni og gat lítið beitt sér vegna eymsla. Þetta kemur allt í ljós." Að sögn Darren Prince, umboðsmanns Rodman, er kallinn vel á sig kominn enda hætti hann að drekka fyrir ári síðan. "Það var erfiður tími en er sem betur fer liðinn," sagði Prince.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×