Sport

Konunglegt klúður í Madríd

Brotthvarf Jose Antonio Camacho úr starfi þjálfara Real Madríd hlýtur að teljast einhver óvæntasti og háværasti knatthvellurinn þetta haustið. Camacho er ein helsta hetja félagsins í gegnum tíðina, í hópi leikjahæstu leikmanna í sögu Spánar, dáður fyrir þrautsegju og baráttugleði. Honum var ætlað að innleiða gömul og góð gildi meðal hinna moldríku ofurbolta „galactico“ sem prýða hið konunglega stórveldi og þykja afar fallegir á velli en deigir til dáða þegar kemur að því að skila stigum í höfn eins og berlega kom fram á titlalausu tímabili í fyrra. Camacho er þungur maður á brún og í hollningu, feitur og sveittur kraftakarl og þannig fullkomin andstæða hinna snyrtilegu ofurbolta. Snöggur hvellur En andstæðurnar virtust of miklar og Camacho er horfinn á braut í annað sinn úr þjálfarastólnum. Í fyrra skiptið dugði hann í 23 daga en í þetta sinn heila 115 þótt sumarleyfisdagarnir næðu reyndar nánast hundraðinu! Tölfræði sem heimildarmyndagerðarmaðurinn Michael Moore hefði gaman að skoða, sbr. kostulega útreikninga hans á frídögum Bush forseta í kvikmyndinni Fahrenheit 9/11. Þrátt fyrir að það kunni að hafa á yfirborðinu sýnst snjöll ráðstöfun hjá Perez forseta að fá þjarkinn Camacho til að hafa stjórn á óstýrilátum stjörnunum hafa sparkspekingar kunnugir félaginu efast um þessa ráðstöfun í allt sumar og spáð Camacho erfiðleikum, þótt fáum hafi reyndar dottið í hug að samstarfið myndi springa svo skjótt. Stjörnurnar eru vanar að hafa sitt fram og virtust líða best undir hinni þægilegu stjórn hins hógværa Vincente Del Bosque sem leyfði þeim að spila svona nánast eins og hver vildi. Í fyrra kom hinn skipulagði en lítt reyndi Carlos Queroz til félagsins og vældu stjörnurnar mjög undan æfingum hans og heftandi leikskipulagi. Diplómat takk! Hafa ber í huga með þjálfara Real Madríd að þeir ráða sáralitlu um það hvaða leikmenn eru keyptir til félagsins og ef ofurboltarnir gera uppreisn er það þjálfarinn sem tekur pokann sinn en ekki öfugt. Það fengu Queroz og Camacho að reyna. Perez forseti ákvað að leysa hnútinn með því að „öppgreida“ aðstoðarþjálfarann Mariano Garcia Remon en flestir álíta að þrátt fyrir að hann sé ráðinn út leiktíðina sé þess ekki langt að vænta að annar þjálfari og þekktari taki við liðinu. Ramon er reyndar ekki alger nýgræðingur, hefur stýrt Sporting Gijon, Las Palmas, Albacete, Salamanca, Numancia og Cordoba, auk þess að stýra Real Madríd tímabundið árið 1996. Kannski reynist Ramon rétta týpan fyrir stórstjörnurnar og ef liðið fær frægan þjálfara til sín er líklega best að hann sé mikill diplómat. Nafn Sven-Göran Eriksson hefur heyrst í þessu sambandi enda fer þar maður sem hefur sýnt sínum stjörnum mikla tryggð með enska landsliðinu. Beckham og Owen ættu allavega ekki að gráta þá ráðningu og myndu eflaust greiða honum braut meðal hinna stjarnanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×