Sport

Grétar langar til Englands

Einn heitasti leikmaðurinn á leikmannamarkaðnum á Íslandi í dag er framherjinn Grétar Ólafur Hjartarson. Hann hefur leikið með Grindvíkingum undanfarin ár við góðan orðstír en nú vill hann reyna fyrir sér á nýjum vígstöðvum. Grétar Ólafur var markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla fyrir tveim árum síðan en missti af nánast öllu tímabilinu í fyrra vegna meiðsla. Hann kom síðan sterkur til leiks í sumar, skoraði 11 mörk og nældi sér í silfurskóinn. „Það er allt opið hjá mér,“ sagði Grétar Ólafur í samtali við Fréttablaðið í gær en fjöldi liða hefur spurst fyrir um hann í sumar. „Það er nóg í gangi en ekkert sem ég get þó sagt nákvæmlega frá í augnablikinu. Ég get þó sagt að ég er á leið til reynslu hjá ensku 2. deildarfélagi og sænsku úrvalsdeildarliði.“ Fyrir utan þessi tvö lið þá hafa komið fyrirspurnir frá fleiri löndum sem og að nokkur íslensk félög hafa nú þegar haft samband við Grétar og óskað eftir því að fá hann að samningaborðinu. „Stefnan hjá mér er að fara út þótt það sé fínt að vera á Íslandi. Ég er orðinn 27 ára gamall og ekki yngist maður. Ég tel mig vera nógu góðan til að fara út og vonandi gengur þetta eftir hjá mér,“ sagði Grétar og bætti við að helst langaði hann til þess að spila á Englandi. Grétar hefur áður reynt fyrir sér í atvinnumennsku með skoska félaginu Stirling Albion og síðan spilaði hann eitt ár með norska félaginu Lilleström en hann komst ekki í lið hjá þeim og var lánaður til Landskrona. Eftir eins árs dvöl í Noregi kom hann heim aftur og hann er ekki spenntur fyrir því að spila aftur í Noregi. „Mér finnst persónulega meira spennandi að spila á Íslandi en að vera úti í Noregi. Norski boltinn heillar mig engan veginn. Hann er leiðinlegur og snýst um lítið annað en kýlingar. Ég myndi hugsanlega íhuga að fara til Noregs ef ég væri 1,97 metrar á hæð,“ sagði Grétar og hló. „Ég er mun spenntari fyrir því að spila í Svíþjóð enda mun skemmtilegri fótbolti spilaður þar.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×