Viðskipti innlent

Baugur skoðar bókhaldið

Fulltrúar Baugs hafa fengið aðgang að bókhaldsgögnum Big Food Group vegna yfirlýsingar sinnar um hugsanlega yfirtöku á félaginu. Talsmaður Baugs segir að yfirferð á þeim gögnum, svokölluð áreiðanleikakönnun, geti tekið fjórar til sex vikur. Stjórn félagsins mælir með að yfirtökutilboði Baugs verði tekið. Hinar miklu skuldir Big Food Group vegna lífeyrismála koma forsvarsmönnum Baugs ekki á óvart, enda hafa upplýsingar um þær legið fyrir í bókhaldi félagsins. Hins vegar mun Baugur þurfa að uppfæra þær upplýsingar til þess að leggja mat á hversu mikið þær skuldir hafi hækkað. Sé um talsverða hækkun að ræða getur það haft áhrif á áhuga félagsins á yfirtökunni og verð félagsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Peter Cummings, stjórnandi hjá Bank of Scotland, þátttakandi í yfirtökutilboðinu. Breskir fjölmiðlar telja að þátttaka hans auki trúverðugleika tilboðsins. Cummings hefur áður starfað með Baugi í fjárfestingum félagsins í Bretlandi. Þá mun athafnamaðurinn Tom Hunter íhuga þátttöku í verkefninu eftir því sem fram kemur í breska blaðinu Times. Talsmaður Baugs segir að hugsanlega bætist fleiri aðilar í hópinn eftir því sem nær dregur yfirtökunni. Þetta mun skýrast eftir því sem á líður í yfirtökuferlinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×