Viðskipti innlent

Óttast doða í athafnalífinu

Gert er ráð fyrir að tillögur um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög verði kynntar á allra næstu dögum. Á fundi Verslunarráðs á föstudaginn ræddi Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Verslunarráðs, um þau áhrif sem breytingar á þessum lögum gætu haft á umhverfi íslensks viðskiptalífs. Þór hefur áhyggjur af því að reglurnar sem setja eigi verði athafnafólki til mikilla trafala. Hann telur að verið sé að setja alltof ströng skilyrði og að það sé misráðið að gera ekki greinarmun á fyrirtækjum eftir stærð þeirra og umhverfi. Smá fyrirtæki ólík almenningshlutafélögum Hann segir að ekki sé eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til smárra fyrirtækja eins og sanngjarnt er að gera gagnvart stórum félögum sem skráð séu á almennan hlutabréfamarkað. "Verði tillögur nefndar viðskiptaráðherra að lögum er verið að íþyngja þúsundum lítilla fyrirtækja hérlendis með margvíslegum nýjum reglum," segir Þór Hann segir að hugmyndir nefndar viðskiptaráðherra um viðskiptalífið feli í sér að lögfest verði skilyrði sem séu mjög íþyngjandi fyrir íslenskt athafnalíf. Á fundinum tók hann dæmi af Hótel Reynihlíð við Mývatn en hluthafar í fyrirtækinu eru sex. "Verði tillögurnar að lögum þurfa eigendur þessa fyrirtækis að boða hluthafafund með 14 daga fyrirvara, skila þarf tilkynningum um framboð til stjórnar innan fimm daga og nákvæmar upplýsingar um frambjóðendur skulu liggja frammi á skrifstofu hótelsins tveim dögum fyrir aðalfund. Þá þarf á hverju ári að ræða starfskjör fyrir framkvæmdastjórann og ákveða hvort halda skuli stjórnarfundi án hans. Þá þarf framkvæmdastjóri að upplýsa aðra hluthafa um viðskipti sem eiga sér stað við aðila honum tengda. Stjórnarformaður þessa fyrirtækis má ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið. Loks geta 10% hluthafa farið fram á rannsókn eða höfðað skaðabótamál í nafni félagsins," segir Þór. Ekki hægt að framfylgja ströngum ákvæðum Hann telur að svo ströng skilyrði ali á tortryggni í rekstri smárra fyrirtækja og dragi úr framkvæmdaþrótti auk þess að í raun verði útilokað að sjá til þess að öll fyrirtæki á landinu framfylgi svo ströngum skilyrðum. Hann bendir ennfremur á að svo ströng rekstrarskilyrði séu ekki lögfest um smáfyrirtæki í helstu samanburðarlöndum. Þór hefur áhyggjur af afleiðingum þess fyrir íslenskt efnahagslíf ef tillögur nefndarinnar verða óbreyttar festar í lög. "Íslendingar stofna fleiri fyrirtæki en nokkurt annað Evrópuríki og við erum framtaksglöð þjóð. Íþyngjandi reglur fyrir öll fyrirtæki í landinu gera ekkert annað en að draga úr áhuga fólks að stofna fyrirtæki," segir hann. "Ég er sannfærður um að ráðherra og þingið munu fara vandlega yfir þessi mál og svona íþyngjandi reglur verði ekki settar fyrir lítil fyrirtæki. Við þurfum af alvöru að skoða hvers vegna doði ríkir í mörgum Evrópulöndum fyrir framtaki og stofnun fyrirtækja og eflaust væri skynsamlegt af ríkisnefndum sem ræða íslenskt viðskiptaumhverfi að heimsækja lönd á borð við Þýskaland og Frakkland og fá úr því skorið hvers vegna við stofnum jafn mörg lítil fyrirtæki og með svo lifandi flóru lítilla fyrirtækja hérlendis í samanburði við þessar þjóðir," segir Þór Sigfússon.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×