Sport

Jón Arnór tók af skarið

Landslið Íslendinga í körfuknattleik lék gegn Rúmenum í íþróttahúsinu í Keflavík í gær. Leikurinn var mjög þýðingarmikill fyrir liðin, sem höfðu bæði tapað fyrir Dönum og voru því leikmenn mættir til að selja sig dýrt. Tap fyrir Rúmenum hefði þýtt að möguleikar Íslendinga á að komast í A-deild Evrópukeppninnar væru nánast engir. Íslendingar byrjuðu sterkt, drifnir áfram af Jóni Arnóri Stefánssyni, en augu flestra beindust að honum enda var hann að leika sinn fyrsta leik á Íslandi í þrjú ár. Jón braust sterkt upp að körfunni og mataði félaga sína í leiðinni. Hann skoraði 6 stig og gaf þrjár stoðsendingar í fyrsta fjórðungi en íslenska liðið hitti úr öllum vítum sínum í leikhlutanum og nýtti 8 af 13 skotum utan af velli. Íslendingar höfðu 12 stiga forskot eftir fyrsta fjórðung, 28-16, en liðið skoraði 11 stig gegn tveimur á lokakafla leikhlutans. Þjálfari Rúmena las vel yfir sínum mönnum, sem mættu mun betur stemmdir í annan fjórðung. Liðið breytti yfir í svæðisvörn sem virkaði vel gegn Íslendingum. Það tók íslenska liðið smátíma að átta sig á breyttum varnaraðferðum Rúmena og finna við þeim svör. Þá hittu gestirnir vel utan af velli og óttuðust margir að gamla grýlan úr Danaleiknum væri mætt á svæðið. Rúmenska liðið skoraði 22 stig gegn 12 í öðrum fjórðungi og staðan í leikhléi var 40-38 fyrir Ísland. Fyrri hálfleikur minnti um margt á leikinn við Dani í Árósum þar sem liðið valtaði yfir andstæðinginn í fyrsta leikhluta en síðan ekki söguna meir. Í upphafi fyrri hálfleiks héldu Rúmenar uppteknum hætti og spiluðu sterka svæðisvörn. Þeir náðu mest 6 stiga forskoti. Íslendingar réðu lítið við skyttur þeirra fyrir utan sem og stóru mennina inni í teignum, sem skoruðu grimmt undir körfunni. Jón Arnór var hvíldur seinni part leikhlutans, hárrétt ákvörðun hjá Sigurði Ingimundarsyni landsliðþjálfara. Jón Arnór byrjaði grimmur í lokaleikhlutanum, skoraði fyrstu fimm stigin og kom Íslendingum yfir, 65-64. Jón átti auk þess góðar sendingar á samherja sína og á þessum tíma virtist eitthvert fár grípa andstæðingana, sem fóru úr vel skipulögðum leik í visst óðagot. Rúmenar tóku illa tímasett skot og fengu að auki á sig tæknivillu á slæmum tíma. Íslendingar létu forystuna aldrei af hendi þökk sé góðum leik frá Helga Má Magnússyni og Magnúsi Gunnarssyni. Lokatölur voru 79-73 og þungu fargi létt af íslenska liðinu, sem getur hæglega unnið riðilinn ef haldið er rétt á spilunum. Jón Arnór var besti maður íslenska liðsins, spilaði vel fyrir liðið og tók af skarið þegar þess þurfti. Hann skoraði 13 stig og gaf 9 stoðsendingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×