Sport

Jón Arnór lék síðast hér 2002

 Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfubolta, leikur sinn fyrsta leik á Íslandi í rúmlega þrjú ár í dag þegar íslenska landsliðið mætir því rúmenska. Ekki er útlit fyrir að Jón Arnór leiki aftur hér á landi í bráð, en hann hefur sem kunnugt er gert samning við rússneska félagið Dynamo St. Petersburg og mun spila í Rússlandi í vetur. Jón Arnór lék með KR í gegnum alla yngri flokkana og  byrjaði að leika með meistaraflokki KR keppnistímabilið 1999-2000 þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Hann lék með KR tvö næstu keppnistímabil en hélt til Þýskalands haustið 2002 þar sem hann gekk til liðs við Trier. Fyrir ári síðan gerði Jón Arnór samning við Dallas Mavericks í NBA-deildinni, en hann fékk ekkert að spreyta sig með liðinu á tímabilinu. Hann tók þátt í sumardeild NBA í sumar með liði Dallas og stóð sig mjög vel en í haust afréð hann að söðla um og leika í Evrópu um skeið. Hann gekk til liðs við nýstofnað félag, Dynamo, í St. Pétursborg í Rússlandi. Jón Arnór lék síðast hér á landi með KR í úrslitakeppninni vorið 2002 en hann hefur ekki leikið landsleik hér á landi síðan haustið 2001. Síðasti landsleikur hans var gegn Írum í Njarðvík 1. september 2001 og skoraði hann þá 9 stig og gaf 6 stoðsendingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×