Sport

Áhorfendur í eigin leik

Eflaust sýnist sitt hverjum um það hvort framfarir hafi átt sér stað í íslenskri knattspyrnu á síðustu árum. Þótt knattleikni leikmanna sé yfirleitt betri en fyrir einum eða tveimur áratugum virðist ýmsu öðru vera ábótavant. Svo virðist sem margir leikmenn beggja kynja á öllum aldri sætti sig við að vera áhorfendur í eigin leik. Langflest lið stilla upp fjögurra manna vörn, yfirleitt gegn tveimur sóknarmönnum, sem veldur oftar en ekki misskilningi í dekkningu því ábyrgðin dreifist á of marga. Of sjaldan færa lausir varnarmenn sig framar á völlinn, dekka á miðjunni, til að stöðva sókn andstæðinganna í fæðingu og veita miðjumönnum stuðning. Þora bakverðir ekki að fara úr "stöðunum sínum" jafnvel þótt engir andstæðingar séu þar? Leik eftir leik fylgjast sumir aðgerðarlitlir með sókn síns liðs í stað þess að bjóða sig fram á við, í "overlap" eða hreinlega til að vera rétt staðsettir ef sóknin er brotin á bak aftur. Enn sjaldnar kemst bakvörður upp að endalínu og gefur fyrir. Góður "sweeper" á miskunnarlaust að reka lausa menn framar og óttast ekki þótt leikmenn séu stundum tveir á tvo eða einn á einn, slíkt er ein skemmtilegasta áskorun varnarmanna. Röng leiðsögn Það getur verið vandræðalegt að fylgjast með því hvernig sumir bera sig við að reyna að koma í veg fyrir fyrirgjafir. Oft er um tóma sýndarmennsku að ræða og sjást mýmörg dæmi þess í hverjum einasta leik. Leikmenn hægja á sér of snemma í "árásinni" og gefa viðkomandi þar af leiðandi nægt svigrúm til að gefa fyrir. Aldrei þykist varnarmaður selja sig til að geta stolið boltanum á hárréttu augnabliki eða til að stýra honum þangað sem honum hentar best? Getur verið að einhverjir leikmenn meistaraflokks hafi aldrei lært að verjast? Er hægt að komast í gegnum alla yngri flokkana án þess að fá rétta leiðsögn? Kunna þeir að dekka einn og hálfan mann? Geta þeir "talað" með sendingu? Eiga þeir að snerta andstæðinginn? Hvernig eiga þeir að stilla sér upp (og hvar) til að eiga möguleika á að komast inn í sendingu? Hvernig fá þeir andstæðinginn til að elta sig í stað þess að vera í stöðugum eltingaleik sjálfir? Getur verið að leikmenn séu sífellt að fá spjöld sökum þess að þeir eru rangt staðsettir eða vegna þess að þeim finnst karlmannlegt að láta finna of mikið fyrir sér? Fámennar skyndisóknir Langflest mörk eru skoruð eftir skyndisóknir en engu að síður virðist þeim verulega ábótavant hér á landi, í það minnsta taka of fáir þátt í þeim. Fátt er verra fyrir varnarmenn en að fá her af sóknarmönnum (sem og varnar-og miðjumönnum) á fullri ferð á sig. Allt of margir leikmenn eru áhorfendur í eigin leik. Þeir senda boltann fram á við og treysta svo á að örfáir leikmenn klári dæmið í stað þess að taka þátt, setja mark sitt á leikinn. Hraður sóknarleikur með þátttöku margra krefst þess að þeir, sem eftir sitja, séu rétt staðsettir -- en á því klikka margir, af því þeir eru að passa svæðin sín. Í mörgum tilfellum virðist leikskilningur vera af skornum skammti því oftar en ekki loka menn hlaupaleiðum í stað þess að opna þær. Krosshlaup sóknarmanna sjást sjaldan hvað þá að "þriðja hlaupið" sé notað. Hversu oft sjáum við bakvörð hlaupa af stað á sama tíma og miðvörður sendir á tengilið (eða senter) sem getur þá nánast gefið blindandi á bakvörðurinn? Leikmenn bjóða sig oft of seint (eða of fyrirsjáanlega) en í öðrum tilfellum bjóða menn sig of oft, í stað þess að víkja. Margir miðjumenn hafa þá tilhneigingu að sækja boltann nánast alltaf til varnarmanna í stað þess t.d. að opna leið fyrir miðvörð sem gæti þá komið óvænt sem aukamaður upp miðjuna, og gefið í fætur á sóknarmanni sem leggur boltann til baka á miðjumenn sem koma á ferðinni í ,,þriðja hlaupið"? Þegar miðvörður brýtur sér leið upp riðlast dekkning andstæðinganna og losar þar af leiðandi um samherjana. Klókindi fátíð Marga leikmenn skortir góða yfirsýn. Í ljósi þess að hver leikmaður er ekki með boltann nema í örfáar mínútur í hverjum leik ættu leikmenn að hafa nægan tíma til að skanna völlinn reglulega, ekki síst til að geta gefið blint til vinstri eða hægri (eða hvert sem er) ef boltinn berst óvænt til þeirra. Snöggir krossar kanta á milli eru fátíðir nema með töluverðum aðdraganda. Í flestum liðum spila menn í sömu stöðum leik eftir leik en engu að síður virðist sem leikmenn hafi ekki talað sig saman um ákveðnar hreyfingar, samspil eða fyrirfram ákveðin hlaup. Klókindi eru fátíð. Leikmenn lenda í sömu aðstöðu sí og æ en þrátt fyrir það virðast samherjar ekki ,,lesa" hver annan nógu vel, spila ekki inn á styrkleika hvors annars til að gera báðum auðveldara fyrir. Þá er furðulegt að sjá leikmenn með margra ára reynslu lyfta upp handleggnum við hliðarlínu til að krefjast innkasts þegar dómararnir eru í vafa hvort liðið eigi innkastið. Sá leikmaður sem sækir boltann, ákveðinn í fasi, án þess að líta upp fær vitanlega innkastið því dómarinn leitar eftir slíkum viðbrögðum. Þau eru fátíð, bæði hér heima og erlendis. Vissulega væru dómarar í vanda ef allir leikmenn væru svona klókir! Þörf á naflaskoðun Þótt flestir séu sammála því að bestu þjálfarar landsins ættu að þjálfa yngri flokkana er það í fæstum tilfellum staðreynd. Líklega ræður bágur fjárhagur félaga mestu þar um. Slíkt yrði þó fjárfesting til framtíðar. Svo virðist sem sitthvað hafi farið úrskeiðis í þjálfun á undanförnum áratugum en þeirri þróun má auðveldlega snúa við. Ég efast ekki um þjálfarar og leikmenn séu að gera sitt besta en þar sem útkoman er ekki betri en raun ber vitni hlýtur einhvers staðar að vera pottur brotinn. Það er þörf fyrir umræður um stöðu íslenskrar knattspyrnu, hvað megi betur fara, hvort þjálfarar séu á réttri leið, hvort ekki þurfi að gera einstaklingsþjálfun hærra undir höfði, mynda afrekshópa efnilegra leikmanna og síðast en ekki síst að vinna betur með andlega þáttinn, markmiðssetningu, næringarfræði og lífið utan vallar. Eflaust finnst einhverjum rangt að miða sig til að mynda við dugnað, skipulag og aga Evrópumeistara Grikkja eða frammistöðu Íslands gegn Ítölum á dögunum en við eigum að setja markið hátt, sífellt að leita að fullkomnun. Þótt margt sé vel gert og margir þjálfarar, leikmenn og lið á réttri leið er löngu tímabært að fara í alvarlega naflaskoðun. Ef við viljum auka gæði íslenskrar knattspyrnu, og efla einstaklinginn á öllum sviðum (innan vallar sem utan), þurfum við að fara ofan í saumana á hverju einasta smáatriði. Og hafa hugrekki til að leita okkur þekkingar og aðstoðar á þeim sviðum þar sem við erum ekki á heimavelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×