Sport

Roma bíður örlaga sinna

Knattspyrnufélagið Roma á Ítalíu bíður nú örlaga sinna í meistaradeild Evrópu eftir atvik sem varð í gær í leik liðsins og Dinamo Kiev frá Úkraínu. Úkraínumennirnir náðu forystu í leiknum og skömmu fyrir leikhlé vísaði sænski dómarinn Andres Frisk varnarmanni Roma, Philippe Mexe, af leikvelli. Þegar dómaratríóið fór útaf í hálfleik kastaði áhorfandi sígarettukveikjara í höfuð dómarans með þeim afleiðingum að úr blæddi. Eftir 40 mínútna bið var tilkynnt í hátalarakerfi vallarins að leikurinn hæfist ekki að nýju og yfirgáfu áhorfendur völlinn. Haft er eftir talsmanni Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, í morgun að dómarinn hefði ákveðið að hætta leiknum þar sem hann taldi öryggi dómaratríósins stefnt í hættu. Aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu tekur málið fyrir. Dinamo Kiev verður dæmdur 3-0 sigur og Roma dæmt í háa fjársekt og félaginu bannað að spila á Ólympíuleikvanginum í Rómarborg. Aganefnd sambandsins gæti einnig vísað Rómarliðinu úr keppni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×