Sport

Sigur en samt svekkelsi hjá FH

FH-ingar sigruðu Framara 4-1 í Kaplakrika en Eyjamenn komu í veg fyrir sigurhátíð þeirra með  því að leggja Fylki að velli á heimavelli, 3-1. Úrslit Íslandsmótsins ráðast því næsta sunnudag. FH-ingar gátu orðið meistarar með sigri á Fram, en 4-1 sigur á Safamýrarpiltum dugði ekki því ÍBV hélt sinni von um titilinn á lífi með því að leggja Fylki að velli. Þar með er ljóst að FH-ingum nægir jafntefli í lokaumferðinni gegn KA fyrir norðan til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Leikurinn í Kaplakrika í gærdag var nokkuð sveiflukenndur en hann fór rólega af stað og virkuðu bæði lið frekar strekkt. FH-ingar skoruðu rétt fyrir hlé og bættu síðan við öðru marki þegar hálftími var eftir af leiknum. Þá tóku Framarar við sér, minnkuðu muninn og voru síðan nálægt því að jafna undir lokin. Þeir áttu skot í stöng en heimamenn brunuðu hins vegar í sókn og skoruðu þriðja markið og bættu síðan því fjórða við í blálokin. Í það heila var sigur FH-inga mjög sanngjarn en liðið hikstaði þó ansi mikið eftir að gestirnir skoruðu. Þeir áttu þó nóg inni. Framarar fá hrós fyrir baráttuna, þeir neituðu að gefast upp í vonlítilli 0-2 stöðu og verði viðlíka barátta og karakter í lokaleiknum getur allt gerst. Mjög skrýtin tilfinning Hinn frábæri Dani, Allan Borgvardt, skoraði þrennu í leiknum og þetta hafði hann að segja eftir leik. „Þetta er mjög skrýtin tilfinning sem ég er að upplifa núna, við unnum góðan sigur og maður ætti að vera mjög hamingjusamur en er samt nokkuð vonsvikinn. Ég var búinn að heyra að Fylkir væri yfir og hafði það á tilfinningunni að við lönduðum titlinum hérna í Kaplakrika. Það tókst því miður ekki en við tökum hann bara í næsta leik. Við sýndum með þessum sigri að við þolum pressuna vel, það var búið að fjalla mikið um þennan leik í fjölmiðlum og við fundum fyrir þó nokkurri pressu. Hins vegar var leikur okkar núna nokkuð kaflaskiptur, við vorum með þetta í hendi okkar en það kom óþarflega mikill skjálfti í okkur þegar Framarar skoruðu. Við náðum þó að komast aftur í gang og gera það sem þurfti að gera,“ sagði Allan Borgvardt sem vildi sem minnst gera úr sínum þætti í leiknum. „Þetta snýst allt um liðsheildina og það er hún sem kemur til með að ráða úrslitum í lokaleiknum gegn KA á Akureyri. Þar ætlum við ekki að spila upp á jafntefli, stefnum ótrauðir á sigurinn og titilinn.“ Ekki öll nótt úti hjá Fram Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Fram, sagði ekki alla nótt úti enn þrátt fyrir tapið: „Við vörðumst ágætlega í fyrri hálfleik og hlutirnir voru nokkurn veginn eins og við vildum hafa þá. Við vorum hins vegar alltof ragir að halda boltanum og það  er hættulegt gegn liði eins og FH sem pressar stíft. Seinni hálfleikur var síðan mun betri, þá náðum við að halda boltanum betur, létum hann ganga og fengum meiri hreyfingu í liðið og komumst betur inn í leikinn. Heppnin var síðan ekki með okkur, skutum í stöng og þeir fara í sókn og klára leikinn – svekkjandi en svona getur fótboltinn verið. Næst á dagskrá er lokaumferðin, algjör úrslitaleikur en við hættum ekki á meðan við eigum möguleika og við ætlum að nýta hann að fullu,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×