Sport

Drukknuðum í súpunni

Íslenska landsliðið í knattspyrnu er í frekar vondum málum eftir fyrstu tvo leikina í undankeppni HM. Það var reyndar allt annað að sjá til íslenska liðsins í Búdapest í gær en á Laugardalsvelli um síðustu helgi er við töpuðum fyrir Búlgörum. Þrátt fyrir ágæta frammistöðu fór liðið tómhent heim og er stigalaust eftir tvo leiki. Það var viðbúið að íslenska liðið lægi aftarlega í leiknum og sækti hratt. Það gerði liðið og gerði vel framan af. Vörnin virkaði örugg og nokkuð líf var í sókninni þar sem fyrirliðinn, Eiður Smári, var ákaflega duglegur að sækja boltann og leita félaga sína uppi. Ungverjar voru daufir og íslenska liðið fékk einu færi fyrri hálfleiks. Markvörður Ungverja, Gabor Kiraly, varði vel frá Eiði Smára á 36. mínútu en hann kom engum vörnum við þrem mínútum síðar þegar Eiður stangaði sendingu Þórðar Guðjónssonar af miklu afli í netið. 1-0 fyrir Ísland í hálfleik og fátt sem benti til annars en að íslenska liðið myndi ná hagstæðum úrslitum. Þórður Guðjónsson var klaufi að koma Íslandi ekki í 2-0 á 49. mínútu er hann komst í dauðafæri. Því miður fór skot hans rétt fram hjá. Ungverjar tóku síðan öll völd í kjölfarið og þeir jöfnuðu metin á 63. mínútu er Zoltan Gera skoraði. Þetta mark var upphafið að æsilegum kafla því Sandor Torghelle kom Ungverjum yfir á 76. mínútu en Indriði Sigurðsson jafnaði um hæl með laglegu marki á 78. mínútu. Það mark reyndist skammgóður vermir því Imre Szabics tryggði Ungverjum sigur á 80. mínútu eftir varnarmistök íslenska liðsins. Landsliðsþjálfararnir þurfa margt að laga ef ekki á hreinlega illa að fara í þessum riðli. Varnarleikurinn virkar alls ekki sannfærandi og Árni Gautur virðist vera í mikilli krísu í markinu. Miðjuspilið hefur ekki verið til staðar í fyrstu tveim leikjunum og spurning hvort landsliðsþjálfararnir séu hreinlega að veðja á rétta hesta í þessum stöðum. Frammi virkar Eiður Smári frekar einmanna og ekki hjálpar til að Heiðar Helguson er fjarri sínu besta. Fram undan er botnslagur á Möltu og miðað við frammistöðuna í fyrstu tveim leikjunum er ljóst að íslenska liðið getur ekki leyft sér að vanmeta Möltumennina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×