Skoðun

Alvarleg staða á Siglufirði

Kvótakerfið - Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslyndra Lengi hafa stjórnvöld reynt að halda þeirri blekkingu að þjóðinni að íslenska kvótakerfið skili einhverri gríðarlegri hagræðingu og þess vegna ætti þjóðin að sætta sig við ósanngirni og siðleysi kvótakerfisins. Ég á þá auðvitað við siðleysið sem fólst í að fáum var afhent á silfurfati eignarhald á auðlind þjóðarinnar. Allir ættu að sjá fáránleikann í því að halda fram að einhver þjóðhagsleg hagræðing felist í kerfi sem hvetur til brottkasts, veldur byggðaröskun og helmingi minni þorskafla en fyrir daga kvótakerfisins. Samt sem áður, þá hafa forustumenn kvótaflokkanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks reynt að benda á að nú eftir að flokkarnir hafi rígbundið sjávarútveginn í kvóta, þá hafi komið fram sterk og öflug sjávarútvegsfyrirtæki. Eitt þeirra fyrirtækja sem kvótaflokkarnir hafa bent hróðugir á til marks um gríðarlegan árangur er Þormóður rammi á Siglufirði. Hver er staðan á Siglufirði, heimahöfn eins af flaggskipum kvótakerfisins, Þormóðs ramma? Þeir sem hafa gleypt óhikað við áróðri kvótaflokkanna, s.s. Morgunblaðið, telja án efa að staðan á Siglufirði hafi sjaldan verið betri vegna "hagræðingarinnar", en því miður er veruleikinn allur annar. Þormóður rammi er skuldum vafinn og hafa stjórnendur fyrirtækisins neyðst til þess að boða aðgerðir sem fela í sér að leggja tveimur af þremur rækjutogurum, en sá þriðji verður gerður út fyrir sunnan land. Að óbreyttu verður staðan sú að enginn togari verður gerður út af félaginu frá Siglufirði, þar sem félagið seldi ekki fyrir löngu úr landi togara og annar var fyrir skömmu seldur í kaupleigu. Ég tel það án nokkrus efa vera mjög áhugavert rannsóknarverkefni fyrir duglegan blaðamann að fara rækilega yfir hvers vegna fyrirtækið er svo skuldum vafið en félagið skuldar tæpar fimmþúsund og þrjúhundruð milljónir króna og hvert fjármunir runnu? Eitt er víst að ekki hefur háum fjárhæðum verið varið til að endurnýja gömul skip félagsins. Það blasir því alvarleg staða við bæjarfélaginu þar sem fyrirhugaðar breytingar á rekstri félagsins munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnuástand í bænum. Eitt það versta við núverandi ástand á Siglufirði er að kvótakerfið kemur í veg fyrir alla nýliðun í sjávarútvegi sem leiðir til þess að duglegir sjómenn sem vildu bregðast við ástandinu og róa til fiskjar frá Siglufirði var gert það ómögulegt. Ég er einn þeirra sem ber hag Siglufjarðar fyrir brjósti en ég vann þar sem unglingur í fiski og síðar sem heilbrigðisfulltrúi og á marga góða vini og kunningja í bænum. Ég hvet Siglfirðinga og aðra þá sem bera hag bæjarins og sjávarbyggðanna fyrir brjósti að ganga til liðs við okkur í Frjálslynda flokknum sem hefur gengið í fylkingarbrjósti og algerlega óhikað til þess verks að drepa úr dróma þau atvinnuhöft sem sjávarbyggðir landsins eru hneppt í .



Skoðun

Sjá meira


×