Víða í höfuðborginni er skortur á gangbrautum. Fjölgun þeirra þarf þó ekki að vera af hinu góða, segir verkfræðingur hjá umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar. Það fer væntanlega ekki framhjá borgarbúum að skólastarf er hafið í borginni, sem og víðar um land. Eitt af því sem brýnt er fyrir ungdómnum þegar skólaganga hefst er að líta til beggja hliða þegar gengið er yfir götur og nota alltaf gangbrautir til verksins. Það kemur því töluvert á óvart að víða um bæinn eru gangbrautir annað hvort ekki til staðar eða þær illa merktar. Til að mynda eru gangbrautir hvorki merktar með skiltum né hvítum strikum í Langarima í Grafarvoginum, þó að víða séu þar hraðahindranir og þrengingar á götum. Á Sundlaugavegi, þar sem nú fara fram miklar framkvæmdir, eru gangbrautir hins vegar merktar með skiltum en strikin vantar á götuna, sem eru jú fyrir börnunum auðkenni gangbrautanna. Baldvin Baldvinsson, verkfræðingur á umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar, segir þrátt fyrir þetta að ekki sé rétt að fjölga hér gangbrautum þar sem rannsóknir sýni að þær geti í ákveðnum tilvikum aukið slysatíðni. Hann vísar í norsku handbókina Trafikksikkerhetshåndboken, sem hann segir talda bestu handbók í Evrópu um umferðaröryggismál, þar sem bent er á að slysatíðni sé yfir meðaltali á vegaköflum á undan og á eftir gangbrautum því þá sé athygli bílstjóra í lágmarki. Að sama skapi sé athygli gangandi vegfarenda oft minni við gangbrautir en ella þar sem þær veiti þeim falska öryggiskennd. Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar Reykjavíkurborgar, kannast ekki við þær röksemdir sem Baldvin nefnir og segir að ekki hafi farið fram sérstök umræða um gangbrautir í borginni undanfarið. Hins vegar komi saman vinnuhópur í september sem muni fjalla um umferðaröryggi barna.