Innlent

Kötlutangi enn syðsti oddinn

Kötlutangi heldur enn stöðu sinni sem syðsti oddi Íslands, þótt hann hafi minnkað verulega frá Kötlugosinu árið 1918. Dyrhólaey við Mýrdal, þessi viðfrægi klettur með gatinu, var löngum syðsti oddi Íslands. Það breyttist hins vegar í Kötlugosinu árið 1918 en hið gríðarlega hlaup sem þá rann fram Mýrdalssand bætti nokkrum kílómetrum við suðurströnd Íslands.



Síðan hefur Kötlutangi, sem liggur sunnan við Hjörleifshöfða, verið skráður í kennslubókum sem syðsti oddi landsins, það er meginlandsins en Surtsey liggur reyndar sunnar, ásamt flestum eyjum Vestmannaeyja. Allt frá síðasta Kötlugosi hefur hafaldan hins vegar jafnt og þétt étið af Kötlutanga og hafa margir spáð því að innan tíðar myndi Dyrhólaey ná aftur þeirri stöðu sem hún hafði fyrstu tíu aldir Íslandsbyggðar.

Það kann hins vegar að verða nokkur bið á því. Samkvæmt upplýsingum Landmælinga Íslands, sem byggðar eru á gervihnattamyndum frá síðasta ári, hefur Kötlutangi ennþá vinninginn á Dyrhólaey, og munar nú um 500 metrum. Landmælingamenn áætla að Kötlutangi minnki nú um 10 til 20 metra á ári.

Miðað við þennan hraða á landbroti við Kötlutanga gæti því tekið einhverja áratugi í viðbót fyrir Atlantshafið að brjóta nægilega mikið af tanganum til að Dyrhólaey komist á ný í landafræðibækurnar. Í millitíðinni gæti auk þess Katla gosið á ný og styrkt enn frekar stöðu Kötlutanga þannig að Dyrhólaey virðist að sinni ekki eiga mikla möguleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×