Innlent

Stefnir í harða milliríkjadeilu

"Það var einróma fallist á tillögu utanríkisráðherra að undirbúa málsókn á hendur Norðmönnum," segir Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra eftir stjórnarráðsfund í gær. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru einhuga um að grípa til aðgerða gegn Norðmönnum vegna Svalbarða enda þykir lagalegur grundvöllur þeirra til svæðisins afar hæpinn. Hvorki sjávarútvegs- né utanríkisráðherra voru sérlega bjartsýnir á að sættir næðust við Norðmenn. Árni segir mikilvægt að greint sé á milli deilunnar um síldina innan hafsvæðis Svalbarða og aðgangs Íslendinga að svæðinu. "Deilan snýst um aðgang að svæðinu og þar teljum við að jafnræðisregla eigi að gilda eins og stofnsáttmáli Svalbarða kveður á um. Þetta er mikilvægt, ekki eingöngu vegna fiskveiða, heldur einnig með tilliti til þess að þarna sé olía eða málmar í jörð sem síðar verður hægt að vinna." Fræðingar telja víst að hefjist málaferli fyrir alþjóðlegum dómstólum vegna þessa máls muni kostnaður ríkisins hlaupa á hundruðum milljóna og taka langan tíma. Árni segir hagsmunagæslu Íslendinga það mikilvæga að slíkur fórnarkostnaður sé ásættanlegur. "Norðmenn eru með þessu framferði sínu að hindra að íslenskur sjávarútvegur geti aukið verðmæti sinna sjávarafurða og um leið hindra þeir skynsamlega nýtingu á auðlindinni við Svalbarða." Hvorki Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra né Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra voru bjartsýnir á að Norðmenn sýndu sáttarhug á fundi Halldórs og norska utanríkisráðherrans í næstu viku. Halldór segist sjálfur óska þess að ekki verði farið í dómsmál. "Ég á ekki von á að sættir náist á þeim fundi. Það tekur lengri tíma en svo en á móti kemur að það gerir allur undirbúningur að málaferlum líka og auðvitað er ekki loku fyrir það skotið að hægt sé að ná landi í millitíðinni." Viðbrögð norskra stjórnvalda voru á þann veg að hægt væri að semja um skiptingu á síldinni en útilokað væri að eiga sérviðræður við Íslendinga um aðgengi að svæði sem Norðmenn stjórna og sé viðurkennt á alþjóðavettvangi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×