Sport

Jakob Jóhann setti Íslandsmet

Jakob Jóhann Sveinsson fór á kostum í Aþenu í gær er hann sigraði í sínum riðli í 100 metra bringusundinu og setti um leið nýtt Íslandsmet en hann átti sjálfur það gamla. Jakob endaði í 23. sæti af 60 keppendum og synti á 1:02.97 en gamla metið hans var 1:03.1. Þrátt fyrir þetta glæsilega sund Jakobs þá dugði það honum ekki til þess að komast áfram en hann var 9/10 úr sekúndu frá því að komast áfram. Hann var ekkert sérstaklega kátur er blaðamaður Fréttablaðsins hitti hann skömmu eftir sundið. "Ég vissi að þetta yrði frekar hægur riðill og ég var ekki nógu ánægður með að lenda á fjórðu brautinni því mig langaði að hafa sterkari menn fyrir framan mig en ég varð að synda alveg sjálfur," sagði Jakob frekar fúll en hann ætlaði sér stærri hluti. Það að vinna riðilinn var lítil sárabót. "Það breytir engu. Ég hef oft unnið riðla á þessum stórmótum en það færir manni ekki neitt. Ég er líka mjög ósáttur við tímann því ég vildi synda hraðar. Ég hefði viljað vera 1:02,00 mínútur. Miðað við allt sem ég er búinn að gera þá hélt ég að það yrði ekkert mál og því er ég frekar fúll. Þessir kallar eru ekkert búnir að vera að synda betur en ég." Jakob á eitt sund eftir en hann tekur einnig þátt í 200 metra bringusundi. Þar ætlar hann að gera betur. "Ég er í hröðum riðli í 200 metrunum og það verður miklu betra. Ég verð bara að spýta í lófana og koma tvíefldur í það sund," sagði Jakob Jóhann Sveinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×