Sport

Enski boltinn farinn af stað

Enska úrvalsdeildin hófst í gær með átta leikjum. Stórleikur dagsins var á White Hart Lane í Lundúnum þar sem Tottenham Hotspur tók á móti Liverpool. Leiknum lauk með jafntefli, 1-1, og voru það frekar vinsælar tölur þennan fyrsta leikdag, því fjórir aðrir leikir enduðu með þessari markatölu. Það voru viðureignir Blackburn og WBA, Manchester City og Fulham, Portsmouth og Birmingham, og svo nýliðaslagurinn á milli Norwich og Crystal Palace. Skemmtilegasti leikur dagsins var þó án efa á milli Bolton og Charlton. Þar var leikin blússandi sóknarknattspyrna og þá sérstaklega af hálfu Bolton-manna, sem unnu stóran og glæsilegan sigur, 4-1. Þar fór fremstur í flokki Nígeríumaðurinn Jay Jay Okocha. Hann lék Hermann Hreiðarsson og aðra varnarmenn Charlton, grátt, hvað eftir annað og auk þess að skora tvö mörk átti hann margar glæsilegar sendingar. Fyrra mark Okocha, fyrsta mark leiksins, var af glæsilegri gerðinni - frábært skot, beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi, sem hafnaði efst uppi í markhorninu. Flottur sigur Bolton staðreynd og liðið greinilega til alls víst en það spilaði geysivel undir lok síðasta keppnistímabils. Aston Villa bar sigurorð af Southampton. Þá var heilmikið fjör á lokakaflanum í leik Newcastle og Middlesborough en leiknum lyktaði með jafntefli, 2-2. Alan Shearer kom Newcastle í 2-1 sjö mínútum fyrir leikslok en það var Jimmy Floyd Hasselbaink sem jafnaði metin á 90. mínútu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×