Sport

United í góðum málum

Manchester United er komið með annan fótinn í meistaradeild Evrópu eftir að hafa lagt rúmenska liðið Dynamo Búkarest að velli, 2-1, í fyrri leik liðanna 3. umferð forkeppni meistaradeildarinnar í Búkarest í gærkvöld. Leikurinn byrjaði þó ekki vel fyrir enska stórliðið því Suður Afríkumaðurinn Quinten Fortune varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark strax á tíundu mínútu en skot rúmenska sóknarmannsins Danciulescu breytti um stefnu á Fortune. Varnarmenn Manchester United áttu í hinu mesta basli með fríska leikmenn Dynamo til að byrja með en þegar líða tók á hálfleikinn náðu þeir betri tökum á leiknum. Ryan Giggs jafnaði metin á 38. mínútu eftir fallegan samleik við Paul Scholes og í síðari hálfleik réðu leikmenn Manchester united lögum og lofum á vellinum. Skotinn ungi Liam Miller kom inn á fyrsta sinn í alvöruleik með Manchester United þegar síðari hálfleikur var hálfnaður og hann hafði aðeins verið inn á tvær mínútur þegar hann lagði upp sigurmark ensku bikarmeistaranna. Hann lék upp kantinn, gaf boltann fyrir og þar varð Alistar, varnarmaður Dynamo, fyrir því áfalli að setja boltann í eigið mark.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×