Sport

Gerrard var með tvö mörk

Enska liðið Liverpool er í góðum málum eftir fyrri leik sinn gegn austurríska liðinu Graz Ak en Liverpool vann leikinn 0–2 sem fram fór í Austurríki. Það var fyrirliðinn Steven Gerrard sem skoraði bæði mörkin. Steven Gerrard skoraði í sitthvorum hálfleiknum, fyrra markið kom með glæsilegu langskoti eftir fallega sókn á 23. mínútu og það seinna eftir góðan undirbúning frá Djibril Cisse 12 mínútum fyrir leikslok. Gerrard skoraði reyndar þriðja markið sitt skömmu áður en hann kom Liverpool í 0–2 en það mark var dæmt af. Liverpool vann þar með sigur í fyrsta alvöru leik undir stjórn Rafels Benitez en Spánverjinn lét Michael Owen dúsa á bekknum allan tímann sem þykir auka líkurnar á að Owen verði seldur til Real Madrid. Ef Owen hefði spilað leikinn í Austurríki í gær þá hefði Real Madrid ekki getað notað hann í Evrópukeppninni seinna í vetur. Milan Baros og Djibril Cisse léku saman í framlínunni og fengu báðir nokkur góð færi til að skora í leiknum. Benitez var ánægður með leikinn. „Við vorum mjög sterkir varnarlega og áttum einnig góða kafla í sókninni. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að ná góðum tökum á leiknum frá byrjun,“ sagði Benitez eftir leikinn. Seinni leikur liðanna fer fram á Anfield eftir tvær vikur og það verður að teljast mjög ólíklegt að leikmenn Liverpool glutri niður tveggja marka forskoti. Graz AZ verður að skora þrjú mörk og til þess þarf það kraftaverk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×