Sport

Framarar af botninum

Framarar unnu sinn annan leik í röð í Landsbankadeild karla á Laugardalsvellinum í gær þegar þeir unnu Grindvíkinga, 2–1, og höfðu fyrir vikið sætaskipti við þá í fallsæti deildarinnar. Framarar hafa með þessum tveimur sigrum komið sér úr vonlítilli stöðu í botnsætinu upp í áttunda sæti deildarinnar og einu sinni enn virðist tími Safamýrarliðsins renna upp með haustinu. Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik, Framarar komust í 2–0 á fjögurra mínútna kafla eftir miðjan hálfleikinn með mörkum frá Ríkharði Daðasyni úr víti og Andra Fannari Ottóssyni eftir varnarmistök. Grindvíkingar réðu gangi leiksins og sköpuðu sér nokkur góð færi en það var aðeins Grétar Hjartarson sem tókst að koma boltanum framhjá Gunnari Sigurðssyni á lokamínútu fyrri hálfleiks. „Þetta var mjög sárt tap og algjör óþarfi. Við fengum góð færi til að skora fleiri mörk, gefum þeim mark og fáum síðan á okkur ódýrt víti. Við erum ekki búnir að uppskera mikið þó svo við séum búnir að vera að spila ágætlega í undanförnum leikjum. Við áttum meira skilið úr þessum leik,“ sagði Guðmundur Valur Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, sem bíður enn eftir fyrsta sigri sínum sem þjálfari liðsins.  „Það verður sama baráttan áfram upp á líf og dauða. Það eru fimm leikir eftir og við eigum margt inni. Það er samt margt sem bendir til þess að við verðum í erfiðleikum í framhaldinu. Við höfum ekki verið síðri aðilinn í síðustu fjórum leikjum en þetta hefur ekki verið að falla með okkur og það hefur verið rýr uppskera hjá okkur að undanförnu,“ sagði Guðmundur Valur en það er óhætt að taka undir með honum að Grindavíkurliðið hafi átt meira skilið úr þessum mikilvæga leik. Ríkharður Daðason skoraði í sínum þriðja leik í röð er hann nýtti víti sem var dæmt á Óðin Árnason fyrir að toga hann niður í teignum. Ríkharður lagði einnig upp seinna markið fyrir Andra Fannar Ottósson og það er gleðiefni fyrir Framliðið að sóknarmenn liðsins séu farnir að skora í hverjum leik. „Ég held að við gerum okkur allir grein fyrir því að við vinnum ekki annan leik ef við spilum aftur jafn illa og í dag,“ sagði Ríkharður Daðason, fyrirliði Fram, eftir leikinn. „Þeir stjórnuðu leiknum og við vorum ekki nógu góðir. Það er þá í fyrsta sinn í sumar sem við fáum þrjú stig og eitthvað aðeins meira en við áttum skilið. Við erum að berjast og farnir að fórna okkur fyrir málstaðinn og það var mikil barátta í liðinu þótt spilið og sendingarnar hafi ekki verið að ganga upp. Við máttum aldrei tapa þessum leik því þá hefðum við verið komnir fjórum stigum frá öruggu sæti. Nú erum við komnir upp úr fallsæti og þetta er í okkar höndum það sem eftir er,“ sagði Ríkharður.   Fram-Grindavík 2-1 1–0 Ríkharður Daðason, víti 24. 2–0 Andri Fannar Ottósson 30. 2–1 Grétar Hjartarson 45. Dómarinn Jóhannes Valgeirsson Góður Bestur á vellinum Gunnar Sigurðsson Fram Tölfræðin Skot (á mark)  17–5 (8–2) Horn 6–4 Aukaspyrnur fengnar 18–25 Rangstöður 7–2 Góðir Gunnar Sigurðsson Fram Gunnar Þór Gunnarsson Fram Viðar Guðjónsson Fram Andri Fannar Ottósson Fram Grétar Hjartarson Grindavík Paul McShane Grindavík Orri Freyr Óskarsson Grindavík Sinisa Valdimar Kekic Grindavík Vissir þú að... ... Framarar unnu sinn fyrsta heimaleik í Landsbankadeild karla síðan þeir unnu Víkinga, 3–0, í fyrstu umferð þann 16. maí síðastliðinn. Síðan þá höfðu þeir spilað fimm heimaleiki í röð án þess að ná að vinna og þar sem meira er höfðu aðeins náð í eitt af 15 stigum í boði. Fimm síðustu stig Framara í deildinni fyrir leikinn í gær höfðu komið í hús á útivelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×