Sport

HK komið í undanúrslit

HK tryggði sig í undanúrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöldi með því að leggja Valsmenn að velli, 1-0, á Kópavogsvelli en þetta er í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í bikarkeppninni. Reyndar mættust þessi lið einnig í fyrsta skipti á Íslandsmóti fyrr í sumar og hafði Valur farið með sigur af hólmi í báðum deildarleikjunum, fyrst 5-1 og svo 0-1. Þessi bikarsigur HK er því kærkomin hefnd. Sigurmarkið gerði Hörður Már Magnússon á 74. mínútu en hann fékk góða sendingu frá Brynjari Víðissyni. Hann var öryggið uppmálað, lék af yfirvegun á markmann Vals og renndi knettinum í autt markið. Þetta var sjötta mark HK í bikarkeppninni í ár og hefur Hörður skorað fimm þeirra - Finnur Ólafsson skoraði sigurmarkið á móti Reyni í Sandgerði, 1-0, í 16-liða úrslitunum en þá var Hörður ekki með! Í það heila voru þessi úrslit sanngjörn því þó að gestirnir hafi verið meira með boltann þá var framlína þeirra hreint skelfilega bitlaus. HK-menn voru þéttir fyrir í vörn og þeir beittu skyndisóknum sem oftast sköpuðu mikinn usla í vörn Valsmanna og kom markið einmitt í einni slíkri. Þessi árangur HK í bikarkeppninni nú er sá langbesti í sögu félagsins en áður hafði liðið komist lengst í 16-liða úrslitin árið 1993. Óhætt er að segja að mikil og skemmtileg stemning ríki í kringum HK, liðið komið í undanúrslit bikarkeppninnar og þá er það í toppbaráttunni í 1. deildinni. Hörður Már Magnússon var enda sáttur þegar Fréttablaðið náði tali af honum í leikslok: "Þetta er bara ævintýri hjá okkur og búið að vera það síðan við unnum Skagamenn í 32-liða úrslitunum. Við höldum ótrauðir áfram og stefnum að sjálfsögðu á bikarúrslitaleikinn. Ég held að þessi árangur okkar í bikarkeppninni gefi liðinu aukið sjálfstraust í deildarkeppninni og það hyggjumst við nýta okkur," sagði markaskorarinn Hörður Már Magnússon. Þess má geta að Hörður hefur einu sinni orðið bikarmeistari - með Val árið 1992 eftir ævintýralegan sigur á KA.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×