Sport

Geta ekki haldið sér á toppnum

Að geta ekki haldið sér á toppnum hefur verið eitt af megineinkennum Fylkismanna í Landsbankadeildinni undanfarin ár, allt frá því að þeir komu upp í efstu deild haustið 1999 hafa þeir nær undantekningarlaust verið í toppbaráttunni lengi móts, oft í toppsætinu og síðan gefið eftir á lokasprettinum. Í ár virðast þeir hins vegar ætla að vera í fyrra fallinu með að klúðra toppsætinu því þeir hafa ekki unnið leik í rúman mánuð, frá 23. júní, og aðeins krækt sér í þrjú stig á þeim tíma. Þeir hafa horft upp á fimm stiga forystu sem þeir höfðu miðvikudagskvöldið 23. júní gufa upp og gott betur því FH-ingar eru komnir með þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar og til að bæta gráu ofan á svart geta Eyjamenn komist yfir Fylkismenn ef þeir vinna KA-menn í kvöld í Vestmannaeyjum. Framan af móti virtist ekkert geta stöðvað Fylkismenn. Þeir spiluðu afskaplega þétta vörn og voru stórhættulegir í skyndisóknum .Þeir sýndu yfirleitt engin snilldartilþrif en þeir gerðu það sem þurftu, nokkuð sem er yfirleitt einkenni meistaraliða. Það var svokallaður meistarabragur á liðinu. Hann hefur hins vegar horfið eins og dögg fyrir sólu í undanförnum leikjum og sjálfstraust leikmanna með. Sá draugur, að hafa aldrei náð að klára heilt mót til enda, vofir yfir Árbænum en það sem er þó jákvætt fyrir Fylkismenn er að niðursveiflan þetta árið kemur fyrr en vanalega og þeir hafa enn tíma og tækifæri til að hysja upp um sig buxurnar og fara að spila eins og menn á nýjan leik. Á síðustu árum hefur allt leikið í lyndi á þessum tíma ársins og það hefur ekki verið fyrr en eftir verslunarmannahelgi sem liðið hefur gefið eftir. Fylkismenn hafa fest sig í sessi sem eitt af toppliðum deildarinnar, umgjörðin er glæsileg í kringum liðið og hvergi er unnið jafn fagmannlegt yngri flokka starf. Þeim hefur hins vegar enn ekki tekist að landa Íslandsmeistaratitlinum þrátt fyrir margar misgóðar tilraunir. 2000 Fylkismenn voru nýliðar í deildinni en komu gífurlega á óvart undir stjórn Bjarna Jóhannessonar. Þeir mættu Íslandsmeisturum KR á KR-velli í fimmtándu umferð og gátu með sigri náð átta stiga forystu á KR, sem átti reyndar einn leik til góða, á toppi deildarinnar og nánast tryggt sér titilinn. Fylkir tapaði hins vegar leiknum og missti síðan toppsætið til KR-inga í sautjándu umferð þegar liðið beið lægri hlut fyrir Grindavík. KR-ingar tryggðu sér síðan titilinn með sigri á Stjörnunni í 18. umferð. 2001 Fylkismenn voru á toppi deildarinnar eftir tólf umferðir með tveggja stiga forystu á Skagamenn. Þá kom hlé vegna verslunarmannahelgarinnar og eftir hana töpuðu Fylkismenn öllum sex leikjum sínum í deildinni og höfnuðu í fimmta sæti. Í kjölfar þessa hörmulega gengis á lokakaflanum hætti Bjarni Jóhannsson með liðið og Aðalsteinn Víglundsson tók við. 2002 Þetta ár háðu Fylkismenn og KR-ingar einvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin skiptust á að leiða mótið og þegar sextán umferðir voru búnar höfðu Fylkismenn eins stigs forystu á KR-inga. Fylkismenn fengu tvö tækifæri til að klára mótið. Fyrst á heimavelli gegn KR-ingum en þar voru þeir aðeins sjö mínútum frá því að vinna leikinn og tryggja sér titilinn. Það var aðeins jöfnunarmark Jóns Skaftasonar fyrir KR sjö mínútum fyrir leikslok sem gerði þann draum að engu. Í lokaumferðinni fóru Fylkismenn upp á Akranes og vissu að titillinn væri þeirra með sigri. Þeir töpuðu hins vegar leiknum og KR-ingar tryggðu sér titilinn með því að vinna Þór, 5-0, á KR-vellinum. 2003 Enn og aftur voru það Fylkir og KR sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn. Þau voru jöfn að stigum eftir þrettán umferðir en þá tóku Fylkismenn sig til og töpuðu næstu fjórum leikjum, þar á meðal, 4-0, gegn KR, í fimmtándu umferð. KR-ingar tryggðu sér titilinn í sextándu umferð en Fylkismenn höfnuðu í fjórða sæti deildarinnar eftir sigur á Val í síðasta leiknum. Aðalsteinn Víglundsson hætti með liðið og Þorlákur Árnason tók við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×