Sport

Engin vandræði hjá FH

FH-ingar áttu í engum vandræðum með að tryggja sér sæti í 2. umferð Evrópukeppni félagsliða í gær er liðið lagði velska liðið Haverfordwest af velli, 3-1, á heimavelli sínum í Kaplakrika, og því samanlagt 4-1. Það fór aldrei á milli mála hvort knattspyrnuliðanna væri færara á sínu sviði í gær - heimamenn í FH höfðu mikla yfirburði og þurftu engan stórleik til að vinna arfaslaka andstæðinga sína. Haverfordwest voru seinni í alla bolta og leyfðu ávallt 1-2 leikmönnum FH að leyka lausum hala inni á vellinum. Ef dæmt er út frá frammistöðu liðsins í gær er Haverfordwest í svipuðum klassa og miðlungs 1. deildarlið á íslenskum mælikvarða, ef ekki verra. Alveg frá byrjun var ljóst hvert stefndi og hafði Jónas Grani Garðarsson klúðrað tveimur upplögðum færum áður en Haverfordwest náði, þvert gegn gangi leiksins og í fyrsta skipti inn í vítateig FH, að komast yfir eftir hroðaleg mistök í vörn heimamanna. Það tók Allan Borgvardt innan við mínútu að jafna metin. Það gerði hann með afar snoturri hælspyrnu eftir fasta aukaspyrnu Emils Hallfreðssonar. Eftir markið héldu FH-ingar áfram að fá dauðafærin og sem fyrr fór Jónas Grani fremstur í flokki við að brenna af þeim - hann hefði á eðlilegum degi skorað 3-4 mörk í fyrri hálfleiknum einum. Auk þess átti Sverrir Garðarsson skalla í þverslá eftir hornspyrnu en inn vildi boltinn ekki og því var staðan jöfn þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik. Sá síðari byrjaði afskaplega rólega og voru leikmenn FH töluvert frá sínu besta. En á 60. mínútu settu þeir í fluggírinn svo um munaði. Fyrst var það Atli Viðar Björnsson sem slapp einn í gegn en Lee Kendall í marki Haverfordwest varði vel og síðan aftur frá Emil nokkrum sekúndum síðar. Á 62. mínútu urðu hlutskiptin aftur á móti önnur er Emil skoraði framhjá Kendall eftir mikil mistök þess síðarnefnda og tveimur mínútum síðar bætti Baldur Bett við þriðja markinu eftir þunga sókn FH. Eftir þennan 5. mínútna frábæra leikkafla lögðust leikmenn ósjálfrátt aftar á völlinn og gat Ólafur Jóhannesson leyft sér að skipta út lykilmönnum. FH-ingar höfðu lokið dagsverki sínu án teljandi erfiðleika og bíður þeirra mun erfiðari leikur í næstu umferð. Í hattinum eru lið á borð við Bröndby, Hammarby og Stabæk en dregið verður í hádeginu í dag. Tommy Nielsen, sem átti mjög góðan dag í vörn FH, var ánægður með að komast áfram en vildi alls ekki mæta einhverjum af þeim dönsku liðum sem eru í hattinum. "Nei, veistu ég spilaði gegn þessum liðum svo oft þegar ég lék í dönsku deildinni að mig langar miklu frekar að mæta einhverju liði sem ég hef aldrei spilað áður gegn. Draumurinn yrði ef við mættum liði sem hefur stóran heimavöll og við myndum keppa í mikilli stemningu. Evrópukeppnin skiptir miklu máli fyrir mig því að ég var aldrei nálægt því að komast í þessa keppni þegar ég lék í Danmörku," sagði Tommy við Fréttablaðið að leik loknum. Hann var ekki á því að hið mikla álag sem er á FH-ingum þessa dagana myndi koma liðinu í koll, en það er í hörkubaráttu á öllum vígstöðvum - deild, bikar og Evrópukeppni. "Þegar við erum að spila svona mikið erum við ekki að æfa eins vel. Mér finnst persónulega miklu betra að spila sem oftast því þá kemst liðið í betra leikform og nær betur saman. Okkur langar að njóta velgengni á öllum vígstöðvum og þótt við séum komnir áfram í Evrópukeppninni þýðir það alls ekkert að við munum slaka á í deildinni né bikarnum," segir Tommy Nielsen. FH-Haverfordwest 3-1 0-1 Tim Hicks 19. 1-1 Allan Borgvardt 20. 2-1 Emil Hallfreðsson 62. 3-1 Baldur Bett 64. Dómari: Kjell Alseth (Noregi) - Mjög góður Bestur á vellinum: Tommy Nielsen Tölfræðin:Skot (á mark) 17-5 (7-1) Horn 4-0 Aukaspyrnur fengnar 10-9 Rangstöður 6-1 Mjög góður:  Tommy Nielsen FH Góðir:  Sverrir Garðarsson FH Emil Hallfreðsson FH Baldur Bett FH Allan Borgvardt FH Lee Kendall Haverfordwest



Fleiri fréttir

Sjá meira


×