Sport

Skellur hjá íslenska liðinu

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik fékk þungan skell í þriðja leik sínum á Promotion Cup í Andorra í gær. Þá tapaði liðið með átta stiga mun gegn Azerbaidjan sem var fyrirfram talið mun veikara lið en það íslenska. Azerbaidjan komst mest í 30-18 í fyrri hálfleik en tveimur stigum munaði á liðunum í hálfleik, 30-32. Þrátt fyrir þessa viðvörun í fyrri breyttist lítið til batnaðar í seinni hálfleik og Azerbaidjan hafði tögl og hagldir á leiknum allan tímann. Erla Þorsteinsdóttir var stigahæst með 17 stig, Birna Valgarðsdóttir gerði 13 og Alda Leif Jónsdóttir var með 12. Skotnýting íslenska liðsins var skelfileg og til marks um það hitti liðið aðeins úr 3 af 23 þriggja stiga skotum. Þá tóku leikmenn Azerbaidjan 23 sóknarfráköst og náðu þannig að leika oft á tíðum langar sóknir sem virtust slá íslensku stelpurnar útaf laginu. Það var ljóst á leik íslenska liðsins að stórir sigrar á Skotum (85-44) og Andorra (96-35) höfðu stigið íslensku stelpunum til höfuðs því þær voru andlausar og nánast óþekkjanlegar í leiknum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Það eina góða við leikinn er að hann skiptir ekki öllu máli, því ætli stelpurnar sér í úrslitaleikinn þá hefðu þær hvort sem er þurft að vinna Möltu í lokaleiknum í riðlinum á morgun. Malta hefur unnið alla sína leiki og lagði Skota að velli með 18 stiga mun í dag, 57-39.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×