Sport

Van Basten tekur við

Marco Van Basten tekur við þjálfun hollenska landsliðsins af Dick Advocaat sem nýverið lét af störfum. Van Basten, sem var á sínum tíma einn allra besti framherji heims og var meðal annars valinn leikmaður ársins í Evrópu þrisvar, gerði samning til ársins 2008. Þjálfari Ajax, John van´t Schip, mun verða aðstoðarmaður Van Bastens. Hinn 39 ára gamli, Van Basten, lék á sínum ferli 58 leiki með hollenska landsliðinu og skoraði í þeim 24 mörk. Þess má geta að fyrsti landsleikur hans var gegn okkur Íslendingum árið 1983. Hápunktur hans með landsliðinu var auðvitað sigurinn í EM 1988 en það er eini stóri titillinn sem Hollendingar hafa hampað í fótboltanum. Van Basten er annar leikmaðurinn úr meistaraliðinu 1988 sem tekur við þjálfun hollenska landsliðsins en Frank Rijkaard var við stjórnvölinn 1998--2000.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×