Sport

Eyjamenn í annað sætið

Eyjamenn skutust í gær í annað sæti Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu með öruggum sigri á KA-mönnum, 4-0. Þetta var þriðji sigur liðsins í röð og ljóst að þeir ætla sér að vera með í toppbaráttunni af fullum krafti. Markahrókurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði þrennu fyrir ÍBV og hefur hann skorað fimm mörk í síðustu tveimur leikjum og ellefu mörk alls, fimm mörkum meira en næstu leikmenn, Grindvíkingurinn Grétar Hjartarson og Framarinn Ríkharður Daðason. Það verður að segjast eins og er það er ekki sama flugið á KA-mönnum þessa dagana. Þeir hafa nú tapað þremur leikjum í röð og eru í næstneðsta sæti deildarinnar. Miðað við spilamennskuna og lánleysi liðsins virðist fátt benda til annars en að liðið verði í vandræðum það sem eftir lifir móts og að hatrömm fallbarátta bíði Þorvaldar Örlygssonar og lærisveina hans. Gunnar Heiðar kom Eyjaliðinu yfir á 30. mínútu þegar hann fékk fallega sendingu inn fyrir vörnina frá Einari Þóri Daníelssyni, lék á Sandor Matus, markvörð KA-manna, og skoraði af öryggi í tómt markið. Hann var síðan aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar þegar hann bætti við öðru marki og hafi KA-menn haft einhverja von um að fá eitthvað út úr þessum leik þá slökkti Gunnar Heiðar þann vonarneista strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks með sínu þriðja marki. Bjarnólfur Lárusson gulltryggði síðan glæsilegan sigur Eyjamanna með fjórða markinu þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma með skoti beint úr aukaspyrnu. Það hafði reyndar viðkomu í varamanninum Bjarna Geir Viðarssyni en breytti ekki stefnu boltans og því er markið skráð á Bjarnólf. Staðan er góð hjá Eyjamönnum þessa stundina. Liðið spilar skemmtilegan fótbolta og með Gunnar Heiðar Þorvaldsson í toppformi virðast þeim allir vegir vera færir. Spurningin sem menn hljóta að spyrja sig að er hvort hægt sé að stöðva Gunnar Heiðar í þeim ham sem hann er í þessa dagana? ÍBV-KA 4-0 1-0 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (30.), 2-0 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (34.), 3-0 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (48.), 4-0 Bjarólfur Lárusson (90.). Dómarinn Egill Már Markússon, góður Bestur á vellinum Gunnar Heiðar Þorvaldsson, ÍBV Tölfræðin Skot (á mark): 16-15 (10-8) Horn: 1-9 Aukaspyrnur fengnar: 16-16 Rangstöður: 1-1 Mjög góðir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, ÍBV Bjarnólfur Lárusson, ÍBV Góðir Matt Garner, ÍBV Andri Ólafsson, ÍBV Ian Jeffs, ÍBV Birkir Kristinsson, ÍBV Dean Martin, KA Pálmi Rafn Pálmason, KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×