Sport

61 stigs sigur gegn Andorra

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik bar sigurorð af Andorra, 96-35, í leik liðanna í Promotion Cup sem fram fer í Andorra. Þetta var annar sigur liðsins í jafnmörgum leikjum og sá þriðji í jafnmörgum leikjum gegn Andorra. Erla Þorsteinsdóttir, fyrirliði liðsins, lék ekki með liðinu vegna meiðsla sem hún varð fyrir í fyrsta leik liðsins gegn Skotum. Birna Valgarðsdóttir lék sinn 50. landsleik í gærkvöld og hún hélt upp á það með stórleik. Birna var stigahæst í íslenska liðinu með 27 stig en hú stal einnig fimm boltum og hitti úr 9 af 11 skotum sínum leiknum. Íslenska liðið hafði mikla yfirburði í leiknum og leiddi með 22 stigum, 29-7, eftir fyrsta leikhluta. Íslenska liðið slakaði á í öðrum leikhluta og náði aðeins að auka muninn um fjögur stig, 49-23, áður en flautað var til leikhlés. Í þriðja leikhluta setti íslenska liðið hins vegar aftur í gírinn og jók forystuna í, 76-31, fyrir lokaleikhlutann. Þar brustu allar flóðgáttir og að lokum stóð íslenska liðið uppi með 61 stigs sigur, 96-35, þar sem Andorra-stúlkur skoruðu aðeins fjögur stig í síðasta leikhluta. Birna Valgarðsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu eins og áður sagði en Alda Leif Jónsdóttir átti einnig skínandi góðan leik. Hún skoraði 18 stig, stal fimm boltum og varði þrjú skot. Hildur Sigurðardóttir skoraði 12 stig, Signý Hermannsdóttir skoraði 11 stig og tók 8 fráköst, Anna María Sveinsdóttir skoraði 9 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst og Erla Reynisdóttir skoraði 7 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. íslenska liðið leikur gegn Aserbaídsjan í dag og hefst leikurinn kl. 18.30 að íslenskum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×