Skoðun

Hvar eru þingmenn Reykjavíkur?

Á næsta ári er hálf öld liðin síðan þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykktu á Alþingi að koma á fót Húsnæðismálastjórn í andstöðu við þingmenn Alþýðuflokks og Sósíalista. Þetta má kalla upphaf opinberrar húsnæðisstefnu hér á landi. Í framhaldi komu Húsnæðisstofnun og Byggingasjóður ríkisins. Á þessum tíma voru sveitamenn að rífa torfbæina og " flóttinn " úr sveitunum var löngu hafinn, enda ný tækni komin til fiskveiða og fólkið flykktist á mölina einsog sagt var. Í sveitinni byggðu menn yfir sig sjálfir og eins í þorpunum. Byggingasjóðurinn var sniðinn eftir lánasjóði bænda og átti að lána fjölskyldum til að koma yfir sig þaki og þeir sem gátu héldu áfram að byggja sjálfir, líka í hér í Reykjavík, sem var aðeins eitt þorpið. Allt tók mið af því að hver fjölskylda kæmi sér sjálf upp framtíðarhúsnæði einsog í sveitinni. Þessi fjölskyldustefna ríkir enn, þrátt fyrir allt hringlið með lánakerfið og er tíðkuð á fleiri sviðum. Ekkert tillit er tekið til þjóðfélagsbreytinga. Nú eru rúm 35% landsmanna venjulegt fjölskyldufólk og um 27% þeirra búa einir. Fólk flytur milli landa og staða á nokkurra ára fresti vegna vinnu og rúmur þriðjungur þjóðarinnar býr í Reykjavík einni og hefur enn ekki fullan atkvæðisrétt í þingkosningum! Annað eins býr í öðru þéttbýli. Reykvískir verkamenn knúðu fram með verkfalli stofnun Byggingasjóðs verkamanna til að byggja yfir alþýðufólk sem þá bjó í bröggum og skúrum útum alla borg. Ekkert hefur breytt Reykjavík meira til betri vegar en þetta framtak. Sveitamenn hafa alltaf stjórnað sjálfu húsnæðislánakerfinu og fóru fljótt að ná sér í peninga úr Byggingasjóði verkamanna til að byggja útum land íbúðir sem engin þörf var fyrir, einungis til að skapa atvinnu í plássunum. Víða stóðu þessar íbúðir auðar enda þær dýrustu í þorpunum, meðan hér vantaði íbúðir. Þá lögðu sveitakarlarnir sjóðinn niður án þess að nokkuð kæmi í staðinn nema meiri lán. Hér í Borginni virkaði þetta alla tíð, en hefði átt fyrir löngu að vera búið að breyta því. Eftir þetta hefur verið hér alvarlegur húsnæðisvandi sem ráðamenn horfa framhjá. Kenningin um " jafnvægi í byggð landsins" er trúlega eitt stærsta rugl Íslandssögunnar á síðari öldum a.m.k. Ég spyr því enn; hvar eru þingmenn Reykjavíkur?



Skoðun

Sjá meira


×