Sport

Seinagangur öryggisgæslu í Aþenu

Öryggissérfræðingar sem varað hafa við hugsanlegum hryðjuverkum á Ólympíuleikunum í Aþenu í ágúst segja tímann til fullnægjandi uppsetningar og undirbúnings öryggisgæslu í borginni senn vera á þrotum. Framkvæmdum á íþróttamannvirkjum og öryggisútbúnaði í Aþenu hefur seinkað nokkuð og vara sérfræðingar í öryggismálum nú við hugsanlegri hættu vegna seinagangsins. Ekki sé nóg að öryggiskerfin séu fullbúin þegar leikarnir hefjist heldur sé nauðsynlegt að þau verði prófuð í þaula áður. Sérfræðingarnir vara við því að of lítill tími gefist til að þjálfa starfsfólk í notkun öryggisútbúnaðar og benda á að allur öryggisútbúnaður vegna Ólympíuleikanna í Sydney árið 2000 og Barcelona árið 1992 hafi verið tilbúinn heilu ári áður en leikarnir fóru fram. Þar með hafi gefist tækifæri til að reyna útbúnaðinn og þjálfa starfsfólk við raunverulegar aðstæður. Hættan nú sé því ekki falin í því að öryggisútbúnaður verði ónógur heldur í því að enginn tími gefist til að láta reyna á hann. Öryggisgæsla vegna leikanna er gríðarleg þrátt fyrir að engin gögn bendi sérstaklega til þess að hryðjuverkasamtök ætli sér að láta til skarar skríða á leikunum. Íþróttamenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Ísrael eru taldir í mestri hættu og hafa yfirvöld landanna sent fjölda öryggisvarða til Aþenu vegna þessa. Kostnaður vegna öryggisgæslunnar er talinn verða nálægt 100 milljörðum íslenskra króna sem er fjórum sinnum hærri upphæð en eytt var í öryggisgæslu vegna leikanna í Sidney fyrir fjórum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×