Sport

McGrady og Francis skipta um félög

NBA-liðin Orlando Magic og Houston Rockets komu sér saman í gær um að skiptast á aðalstjörnum sínum, Tracy McGrady fer frá Orlando til Houston sem í staðinn fá Steve Francis. Auk þeirra fór framherjinn Juwan Howard og bakverðirnir Tyronn Lue og Reece Gaines til Rockets en á móti kom bakvörðurinn Cuttino Mobley og framherjinn Kelvin Cato með Francis til Magic. McGrady hefur tvisvar verið stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar og var með meðaltal upp á 28,0 stig, 6,0 fráköst og 5,5 stoðsendingar á síðasta tímabili. Mikil spenna er að sjá hvernig hann og Kínverjinn Yao Ming ná saman. Ming er 2,26 metrar á hæð en mjög hreyfanlegur og mjúkur miðherji þrátt fyrir alla þessa sentimetra. Margir hafa spáð fyrir svipaðri velgengni hjá þessum tveim í framtíðinni og hjá þeim Shaquille O´Neal og Kobe Bryant hjá LA Lakers á síðustu árum enda líkt og þeir tveir frábærir og illstöðvanlegir leikmenn á ferðinni. McGrady komi til Orlando fyrir fjórum árum og ætlaði þá að mynda annað gott tvíeyki með Grant Hill en Hill hefur síðan aðeins spilað 37 leiki vegna meiðsla og McGrady var með allt liðið á herðum sér þann tíma sem hann spilaði á Flórídaskaganum en hann er einmitt ættaður þaðan. Það var því vilji McGrady að fara frá Magic, sem var með slakasta árangurinn á síðasta ári, og Orlando vildi ekki eiga hættu á að missa hann fyrir ekki neitt þar sem hann átti aðeins eitt ár eftir af samningnum sínum. McGrady, sem er 25 ára, er fjórði stigakóngurinn í sögu NBA-deildarinnar sem skiptir um lið en það hafði ekkert gerst í 28 ár eða síðan 1976. Francis hefur þrívegis verið valinn í Stjörnuleikinn en hann var með 16,6 stig, 5,5 fráköst og 6,2 stoðsendingar að meðaltali með Houston á síðasta tímabili og slóst þar með í hóp með þeim Oscar Robertson, Magic Johnson og Grant Hill sem eru einu leikmennirnir í sögu NBA sem ná að skora 15 stig, taka fimm fráköst og gefa fimm stoðsendingar að meðaltali öll fyrstu fimm árin sín í deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×