Sport

Larsson búinn að semja við Barca

Sænski framherjinn Henrik Larsson hefur gert tveggja ára samning við spænska liðið Barcelona en hann ákvað að söðla um eftir sjö ár með Celtic. "Ég nýt þess að spila undir þeirri pressu sem fylgir því að spila fyrir jafnstóran klúbb og Barcelona. Ég þekki líka það vel því þannig var það hjá mér með Celtic í Skotlandi," sagði Larsson, en hann vann fjóra titla með Celtic og er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins með 242 mörk í aðeins 315 leikjum fyrir Glasgow-liðið. Larsson hefur þegar verið úthlutað númeri hjá Börsungum en hann mun spila í peysu númer 17. Larsson er samt ekkert á því að fara hætta og segist ekki vera að klára ferilinn á Nývangi. "Ég er ekki hér í einhverju fríi. Ég ætla gefa allt mitt í leikina fyrir Barsa og halda áfram allt fram í rauðan dauðann. Þetta er stór áskorun fyrir mig, einmitt áskorunin sem ég hef verið að leita að," sagði Larsson, en hann lét það allan tímann í ljós að hann vildi komast til Spánar og þá helst í raðir Barcelona. Larsson var hættur með sænska landsliðinu en sneri aftur fyrir Evrópumótið í Portúgal þar sem hann skoraði þrjú mörk fyrir Svía sem eins og kunnugt er komust í átta liða úrslitin þar sem þeir féllu út er þeir töpuðu fyrir Hollendingum í vítakeppni. Hann hefur skorað 28 mörk í 78 landsleikjum og meðal afreka hans á ferlinum er að vera markahæsti leikmaður Evrópu veturinn 2000-2001 er hann skoraði 35 mörk á tímabilinu fyrir Celtic. Börsungar eru að safna liði fyrir komandi leiktíð enda hafa afrekin á síðustu tímabilum ekki verið mörg en liðið endaði þó í öðru sæti síðasta vetur þökk sé góðum endaspretti. Brasilíski varnarmaðurinn Juliano Belletti var keyptur frá Villarreal fyrir 326 milljónir íslenskra króna og franski miðvallarleikmaðurinn Ludovic Giuly kom frá Mónakó fyrir 590 milljónir. Nú er greinilega sett stefnan á að koma með fyrsta titilinn á Nývang í fimm ár en liðið er með í meistaradeildinni næsta vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×