Sport

Samonella í Aþenu?

Matsölustaðir í og við Aþenu hafa fengið rauða spjaldið frá matvælayfirvöldum í landinu og það aðeins nokkrum vikum áður en Ólympíuleikarnir hefjast þar í borg. 70% af þeim stöðum sem gengust undir skoðun fengu sektir eða var hreinlega lokað af rannsóknarnefndinni. Hótel, veitingastaðir og matvöruverslanir stóðust ekki gæðakröfur en prufað var allt frá gæði matarins sem var boðið upp á til þess hvernig hann var geymdur. "Frá því í byrjun árs höfum við skoðað yfir 3.200 staði og um 70% þeirra hafa ekki staðist þessa skoðun þó að vandamál staðanna hafi bæði verið ólík í gerð og stærð," sagði Nikos Katsaros, yfirmaður heilbrigðismála í landinu. Íþróttamennirnir ættu þó ekki að óttast matmálstímana á leikunum því allt verður í fínasta lagi í Ólympíuþorpinu. Grískir veitingastaðir ganga í endurnýjun lífdaga fyrir Ólympíuleikana eftir tiltektina og ætti þar af leiðandi að vera óhætt að fara út að borða í rólegheitunum í heitri höfuðborg Grikklands. Það var síðast í fyrra sem þýskt róðralið sýktist af salmónellu þegar forráðamenn Ólympíuleikanna stóðu fyrir generalprufu fyrir leikana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×