Sport

Grískir leikmenn eru eftirsóttir

Gríska landsliðið hefur komið mörgum sinnum á óvart á Evrópumótinu í Portúgal, allt frá því þeir unnu gestgjafana í Portúgal í opnunarleik mótsins, skildu Spánverja eftir í riðlinum eða þar til að þeir slógu út Evrópumeistara Frakka í átta liða úrslitunum. Lítt þekktir leikmenn liðsins eru líka að krækja í athygli félaga í Evrópu og þar sem peningavandræði, skipulagsleysi og ólæti áhorfenda stela sviðsljósinu í grísku deildinni eru þeir ólmir í að komast að hjá liðum annarsstaðar í Evrópu. Það má því búast við að margir úr leikmannahóp Grikkja skipti um lið fyrir næsta tímabil. "Okkar markmið á mótinu var að sýna og sanna það sem grískir knattspyrnumenn geta gert og kynna heiminn fyrir leikmönnum liðsins," sagði markvörðurinn Antonis Nikopolidis. Átta af 23 leikmönnum í hópnum spila þegar erlendis en hinir 15 bíða eflaust spenntir eftir því að tilboð berist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×