Skoðun

Frá degi til dags

Árekstrar forseta og stjórnar Fordæmi munu vera fyrir því að haldnir séu ríkisráðsfundir í fjarveru forsetans. Um síðustu helgi rifjaði Ólafur W. Stefánsson, fyrrverandi skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, upp einn slíkan sem haldinn var 20. maí árið 1957, daginn áður en þáverandi forseti, Ásgeir Ásgeirsson, kom til landsins úr einkaerindum í útlöndum. Á fundinum skrifuðu handhafar forsetavalds undir fjöldanáðun tuttugu einstaklinga sem dæmdir höfðu verið og flestir líka sviptir kosningarétti og kjörgengi til opinberra starfa, fyrir óspektir við Alþingishúsið þegar mótmælt var inngöngu landsins í NATO árið 1949. Gengið var frá tillögu um náðunina til forsetans tveimur dögum áður en hann hélt utan, en engu að síður skrifaði hann ekki undir hana sjálfur, heldur var frá henni gengið rétt áður en hann kom aftur heim. Ekki er vitað af hverju Ásgeir skrifaði ekki undir náðunina, en velt hefur verið upp spurningunni um hvort hún hafi verið honum á móti skapi og því hafi "vinstri stjórn" Hermanns Jónassonar haft þann hátt á að láta handhafa forsetavalds skrifa upp á hana. Bitastætt embætti Fimmtán sækja um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Embættið er vænn biti en búið er að ákveða að sameina heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi þarna undir einn hatt. Í desember verða lagðar niður framkvæmdastjórastöður á heilsugæslustöðvum um allt Suðurland og nýr framkvæmdastjóri sameinaðs reksturs skipuleggur starfsemi stofnunarinnar til framtíðar. Í fljótu bragði vekja tvö nöfn sérstaka athygli. Annað er nafn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra heilsuhælis Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði, og hitt er nafn Holbergs Mássonar, sem í eina tíð gerði það gott með tæknifyrirtækið Netverk í Bretlandi. Ekki er þó vitað nánar um afdrif Netverks, en Holberg hefur verið orðaður við Re/Max-fasteignasölu hér heima.



Skoðun

Sjá meira


×