Skoðun

Mogginn út úr skápnum

Ægir Magnússon skrifar um forsetakosningarnar og túlkun á úrslitum þeirra. Þá er forsetakosningum lokið og þjóðin hefur talað. Ólafur Ragnar hlaut glæsilega kosningu. En lýðræðið er ekki öllum tamt. Í stað þess að sætta sig við niðurstöður hafa sumir tekið upp alveg nýja túlkun á kosningaúrslitunum, eins og einhverjar sérreglur eigi að gilda fyrir Ólaf Ragnar. Einn þessara manna, prófessor við Háskóla Íslands, túlkar niðurstöðurnar þannig að hinn nýkjörni forseti sé ekki forseti þjóðarinnar, hann sé bara forseti vinstrimanna! Ja, þá mega vinstrimenn vel við una að hafa þvílíkt fylgi. En auðvitað er svona málflutningur ekki boðlegur. Annað sem er athyglisvert er hlutur Morgunblaðsins. Þeir sem því stýra hafa sannarlega komið út úr skápnum og staðfest það, sem margir hafa svo sem vitað, að Morgunblaðið er ennþá flokkspólitískt blað Sjálfstæðisflokksins. Hvernig væri ástandið ef annarra prentmiðla nyti ekki við og Morgunblaðið sæti eitt og samkeppnislaust á þessum markaði? Mitt svar er einfalt, það væri algerlega óviðunandi og lýðræðinu hættulegt. Út frá þessu komum við kannski að kjarna málsins, hvers vegna forsetinn beitti málskotsréttinum. Við verðum að hindra það að lög um fjölmiðla fækki prentmiðlum hér á landi og flokksmálgagn Sjálfstæðisflokksins sé eitt á markaðinum. Það er lýðræðinu nauðsynlegt að hér sé prentmiðill sem notar önnur gleraugu en Morgunblaðsmenn. Hver á þann prentmiðil gildir einu, heldur það að öll sjónarmið komist til skila, lýðræðisins og þjóðarinnar vegna.



Skoðun

Sjá meira


×