Sport

Blússandi sóknarbolti á EM í kvöld

 Portúgalar mæta Hollendingum í undanúrslitum EM í kvöld og verður væntanlega mikið um dýrðir, innanvallar sem utan. Leikurinn fer fram í Lissabon á hinum glæsilega Jose Alvalade leikvangi. Mikil spenna er í Portúgal en heimamenn hafa heldur betur snúið við dæminu eftir óvænt tap gegn Grikkjum í fyrsta leik. Hollendingar voru heldur ekkert alltof sprækir í byrjun móts en rétt eins og hjá Portúgölum hefur verið stígandi í leik liðsins. Báðum liðum fer best að leika blússandi sóknarbolta og vonandi verður raunin sú. Á hinn bóginn vill það oft brenna við að í leikjum sem eru þetta mikilvægir að varkárnin verði höfð í fyrirrúmi enda hver mistök dýr og enginn vill verða valdur að tapi - framlenging og vítaspyrnukeppni myndi væntanlega ekki koma neitt gríðarlega mikið á óvart. Hollendingar hafa einu sinni komist í úrslitaleikinn, fyrir sextán árum, en þá fóru þeir alla leið og hömpuðu Evrópumeistaratitlinum eftir leik gegn Sovétmönnum. Árangur Portúgala nú er jöfnun á þeirra besta árangri hingað til en í EM árið 1984 komust þeir í undanúrslit en töpuðu þá fyrir Frökkum. Þjálfari Portúgala, Brasilíumaðurinn Luiz Felipe Scolari, virðist á hinn bóginn vera nokkuð upptekinn af leikaraskap og brögðum Hollendinga. Hann hefur hvatt dómara leiksins, Svíann Anders Frisk, í fjölmiðlum, að vera á varðbergi gagnvart Hollendingum: "Dómarinn verður að fara varlega svo hann gefi ekki Hollendingum forskot - við erum búnir að greina leik þeirra niður í smæstu atriði og erum meðvitaðir um brögð þeirra sem dómarinn á ekki alltaf auðvelt með að koma auga á. Ég sagði fyrir mót að markmið okkar væri að komast í undanúrslitin en auðvitað vil ég núna fara alla leið og við getum það alveg. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að Hollendingar eru með mjög sterkt lið og við erum ekki á neinn hátt sigurstranglegra liðið þó við séum á heimavelli. Ef litið er á tölfræðina sjáum við að liðin eru nokkuð jöfn í helstu þáttum hennar og væntanlega verður því um mjög jafnan leik að ræða," sagði Luiz Felipe Scolari. Bæði lið geta væntanlega stillt upp sínu sterkasta liði í leiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×