Sport

Deco vill til Barcelona

Portúgalinn Deco hefur gefið sterklega í skyn að hann vilji færa sig um set til nágrannalandsins Spánar. Eftir frábæra frammistöðu í vetur með Portó þar sem liðið hampaði bæði meistaradeildartitlinum og þeim portúgalska er Deco afar eftirsóttur leikmaður. Frammistaða hans á EM hefur síðan ekki dregið úr áhuga stórliða á að fá hann til liðs við sig. Bæði Chelsea og Bayern München vilja ólm þiggja þjónustu Decos en nú hefur hann látið í veðri vaka að hann vilji helst af öllu ganga til liðs við Barcelona:  "Framtíð mín ræðst eftir EM og það væri ábyrgðar- og virðingarleysi af mér gagnvart félögum mínum í landsliðinu að ræða of mikið um mín mál á þessari stundu þegar svo mikilvægur leikur er framundan," en Portúgalar mæta einmitt Hollendingum í undanúrslitum EM í kvöld. Hins vegar bætti Deco þessu við: "Það eru mörg stórlið áhugasöm en forráðamenn Portó hafa auðvitað mikið um málið að segja. Á hinn bóginn vilja allir spila fyrir Barcelona, þó er ekkert ákveðið," sagði Deco.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×