Sport

Ebbe Sand lýkur keppni

Danski framherjinn Ebbe Sand tilkynnti eftir tapið gegn Tékkum í átta liða úrslitum EM í Portúgal að hann hefði leikið sinn síðasta landsleik. Sand, sem er 31 árs, hefur átt mjög góðan feril með danska landsliðinu en fyrir það lék hann 66 landsleiki og skoraði í þeim 22 mörk. Hann byrjaði inn á í öllum þremur leikjum Dana í riðlakeppni EM í Portúgal en missti af tapleiknum gegn Tékkum vegna meiðsla. Hann sagði á blaðamannafundi í gær að aðalástæðan fyrir ákvörðun sinni væri sú að hann væri ekki lengur líkamlega fær um að spila bæði með landsliðinu og félagsliði sínu í þýsku úrvalsdeildinni, Schalke 04. "Álagið er of mikið og ég verð að fá einhverja hvíld eftir að keppnistímabilinu lýkur ef ég ætla mér að eiga nokkur góð ár í viðbót í boltanum," sagði Sand. Ebbe Sand lék sinn fyrsta landsleik árið 1998.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×