Sport

Lét Liverpool-hjartað ráða för

Tilkynnt var á blaðamannafundi í gærdag að Steven Gerrard myndi vera áfram í herbúðum Liverpool. Þrálátur orðrómur hefur verið í gangi um að hann væri á leiðinni til Chelsea sem ku hafa verið tilbúið að borga 30 milljónir punda fyrir Gerrard. Mikil óvissa hefur ríkt hjá Liverpool vegna leikmannamála og til að mynda hefur Michael Owen verið duglegur við að minna á sig og í raun verið með óbeinar hótanir þess efnis að ef ekki yrði samið við Steven Gerrard myndi hann einnig yfirgefa Liverpool. Nú virðist sem Liverpool hafi náð að leysa þessi mál farsællega og líklega hefur ráðning Rafaels Benitez sem framkvæmdastjóra átt stóran þátt í því. Steven Gerrard hafði þetta að segja um ákvörðunina: "Síðustu þrjár til fjórar vikur hafa verið nokkuð ruglingslegar hjá mér. Ég hef tekið þátt í stórmóti og það er ástæðan fyrir þögn minni varðandi framtíð mína. Ég hef ekki verið ánægður með framþróunina hjá Liverpool á undanförnum þremur til fjórum árum, eins og ég hef oft sagt áður í fjölmiðlum, og í fyrsta skipti hugsaði ég alvarlega um það að yfirgefa félagið og halda á önnur mið. Eftir heimkomuna af EM settist ég niður með fjölskyldu minni og við ræddum málin hreinskilnislega. Ég bað einnig um fund með Rick Parry, þann fjórða á tveimur mánuðum. Eftir að hafa náð að tala við umboðsmann minn og mína nánustu hef ég ákveðið að vera áfram hjá Liverpool. Ástæðan er einföld - ég lét hjartað ráða för. Ég elska þetta félag og aðdáendur þess og í sameiningu munum við horfa fram á bjarta tíma," sagði Steven Gerrard.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×