Innlent

Björgunaraðgerðir umfangsmeiri?

Björgunaraðgerðir við að bjarga tyrkneska súrálsskipinu, sem strandaði utan við Straumsvík á laugardaginn, gætu orðið mun umfangsmeiri en áætlað var í fyrstu, ef rétt reynist að sprungur séu komnar í byrðing þess. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar komu brestir í ljós í skrokki skipsins, sem heitir Kiran Pacific, þegar kafarar könnuðu botn skipsins í gærkvöld og fram á nótt. Þetta fékkst ekki fyllilega staðfest en ef svo er munu sérfræðingar jafnvel telja nauðsynlegt að létta skipið með því að flytja farminn yfir í annað skip, áður en reynt verður að draga það af skerinu, af ótta við að byrðingur skipsins kunni að bresta og sjór flæða í lestar þess. Vitað er að leki kom að stafnhylki og einhverjum botntönkum fyrir sjó en engin olía hefur lekið frá skipinu. Áhöfnin er enn um borð og varðskip er á vettvangi ef á þarf að halda. Fulltrúar Umhverfisstofnunar, tryggingafélags skipsins og hollenska björgunarfélagsins, sem búið er að semja við um björgunina, áttu óformlegan samráðsfund um borð í skipinu í morgun og er formlegrar björgunaráætlunar að vænta síðar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×