Sport

Breska pressan í stríð við Maier

Svissneski dómarinn Urs Maier á ekki sjö dagana sæla nú um stundir. Ensku blöðin ætla ekki að fyrirgefa honum fyrir að hafa dæmt mark Sol Campbell af í leik Englendinga og Portúgals á fimmtudag. Þau hafa sagt honum stríð á hendur og í breska blaðinu The Sun í gær er greint frá því að hann hafi haldið fram hjá konunni sinni sem hann átti tvö börn með. Konan sem hann hélt fram hjá með heitir Nicole Petignat og er einnig dómari. Hún varð heimsþekkt í fyrra er hún varð fyrsta konan til þess að dæma Evrópuleik hjá körlum en þá dæmdi hún fyrri leik Fylkis og AIK í UEFA-keppninni sem fram fór í Svíþjóð. "Urs hélt fram hjá mér og nú virðist hann hafa farið illa með Englendinga," sagði fyrrverandi eiginkona Maiers, Franziska, í viðtali við The Sun. "Ég ber engar tilfinningar til þessarar konu. Skilnaðurinn er ekki genginn í gegn en þetta er mjög sárt því hjónabandið endaði út af framhjáhaldi hans." Maier ætlar ekkert að gefa sig í baráttunni og hann sagði í gær að hann stæði við dóminn. Það væri ekkert út á hann að setja og honum virtist sem reiði Englendinga einkenndist af því að þeir væru að leita að einhverjum til að kenna um tapið. Unnustan Nicole stendur fast við hlið síns manns og hún segir að tapið hafi ekki verið Maier að kenna. "Mér fannst þetta réttur dómur og aðalástæðan fyrir því að England komst ekki áfram er David Beckham. Hann lék illa og ég trúði ekki mínum eigin augum þegar hann tók fyrsta vítið. Þið ættuð frekar að kenna honum um tapið," sagði Nicole.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×