Sport

Gríðarlegur liðsstyrkur

Haukum hefur bæst gríðarlegur liðsstyrkur og nú síðast í formi landsliðsmarkvarðarins, Helgu Torfadóttur, sem mun verja mark þess á næstu leiktíð. Það þarf ekki að orðlengja að Helga er ásamt, Berglindi Írisi Hansdóttur, markverði Vals, besti markvörður landsins. Hún lék í Danmörku síðastliðna tvo vetur með Tvis Holstebro en þar áður með Víking en þar liggja hennar rætur. Áður hafði Haukaliðið fengið landsliðskonuna Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur og Nínu Kristínu Björnsdóttur til baka og þá verður Harpa Melsted klár í slaginn eftir að hafa fjölgað mannkyninu. Einnig verður rosaskyttan frá Litháen, Ramune Pekarskyté, besti og markahæsti leikmaður síðastliðinnar leiktíðar, áfram á Ásvöllum og eru það gleðitíðindi fyrir kvennahandboltann. Landa hennar, Kristina Matuzeviciute, snýr einnig aftur og ásamt Helgu Torfadóttur munu þær líklega mynda sterkasta markmannapar íslenskrar kvennahandboltasögu. Aðrir lykilmenn verða einnig áfram og ekki er allt búið enn. Á næstu dögum mun Guðmundur Karlsson skrifa undir samning sem þjálfari liðsins en hann tekur við af Ragnari Hermannsyni. Guðmundur er ekki alveg ókunnugur herbúðum Hauka en undir hans stjórn varð karlalið félagsins Íslandsmeistari árið 2000 eftir 47 ára bið. Með Guðmund við stjórnvölinn er þetta Haukalið verulega óárennilegt og greinilegt að stórhugurinn ríkir áfram á Ásvöllum og það á að bæta fyrir frekar slakt gengi á síðasta keppnistímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×