Skoðun

Reykjavík er falleg borg

Umræðan - Óli Hilmar Jónsson, arkitekt, skrifar um Reykjavík. Björn Br. Björnsson reit næstum heila síðu í Fréttablaðið þriðjudaginn 22. júní um ljótleika Reykjavíkur. "Hvat er með álfum, hvat er með ásum?" Auðvitað geta allir haft sína skoðun á fríðleika borga og bæja alveg eins og sumum finnast sumar konur bara ansi huggulegar þegar aðrir þakka Guði fyrir að vera ekki giftir slíkum herfum. Staðreyndin er engu að síður sú að Reykjavík er falleg borg á margan hátt og miðbærinn, með tjörnina, Tjarnargötuna og Torfuna er sannarlega perla sem vert er að hlúa að. En það er rétt hjá Birni Brynjúlfi að það eru einstaka hús í þessum veislusal sem eru lítið augnayndi. Í heildina er Reykjavík samt sem áður falleg borg með ágæta heildarmynd og léttu yfirbragði. Í borginni eru falleg útivistarsvæði, með göngu- og hjólastígum sem vaxa með ári hverju. Stígurinn meðfram Ægisíðu um Fossvog sem tengist síðan göngustígakerfi Kópavogs og Seltjarnarness er til dæmis á heimsmælikvarða og þessum sveitarfélögum til mikils sóma og íbúunum þeirra til ánægju. Þess má geta sem vel er gert! Til mín komu í heimsókn fyrir nokkrum árum þekktir finnskir arkitektar. Þeim fannst Reykjavík falleg. Þeim fannst litagleðin á húsum og þökum skemmtileg. Og þeim fannst Hallgrímskirkjuturn fallegt kennileiti. Ef þetta hefðu verið bæir í Finnlandi hefðu þeir líklega viljað giftast Reykjavík, eins og Tómas heitinn skáld gerði raunar. Ég hef ferðast um ýmsar borgir, bæði vestan hafs og austan. Eftir því sem ég kynnist þeim betur, þykir mér vænna um Reykjavík.



Skoðun

Sjá meira


×